Lífið

Spáir Jóhanni Óskarsverðlaunum

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Tónskáldið Jóhann Jóhannsson er hér á frumsýningu myndarinnar The Theory of Everything.
Tónskáldið Jóhann Jóhannsson er hér á frumsýningu myndarinnar The Theory of Everything. nordicphotos/getty
Ein helsta og virtasta vefsíða á sviði kvikmynda, Indiewire telur Jóhann Jóhannsson afar sigurstranglegan á Óskarsverðlaunahátíðinni sem fram fer í næsta mánuði.

Jóhann samdi tónlistina í kvikmyndinni The Theory of Everything, sem byggð er á ævi vísindamannsins Stephen Hawking.

Tilnefningarnar til Óskarsins hafa ekki verið kynntar en blaðamenn Indiewire hafa verið iðnir við að giska á mögulega sigurvegara.

Sá sem setur fram spána um bestu tónlistina á síðunni heitir Clayton Davis og er virtur kvikmyndagagnrýnandi og mógúll. Hann er meðal annars ritstjóri vefsíðunnar Awards Circuit og þá er hann meðlimur í hinum ýmsum samtökunum gagnrýnenda. Einnig leita stórir miðlar eins og CNN og Bloomberg til hans í umfjöllunum sínum.

Þeir sem Indiewire telja vera helstu keppinauta Jóhanns eru Alexandre Desplat fyrir tónlistina í myndinni The Imitation Game, Hanz Zimmer fyrir Interstellar, Trent Reznor og Atticus Ross fyrir Gone Girl og Thomas Newman fyrir The Judge. Jóhann er því í ansi flottum hópi tónskálda.

Hann er tilnefndur til Golden Globe-verðlaunanna fyrir tónlist sína í myndinni um Stephen Hawking, en þau verða veitt á sunnudagskvöldið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×