Gagnrýni

Fortíðin er eina heimalandið

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Hinn litlausi Tsukuru Tazaki og pílagrímsár hans eftir Haruki Murakami.
Hinn litlausi Tsukuru Tazaki og pílagrímsár hans eftir Haruki Murakami.
BÆKUR

Hinn litlausi Tsukuru Tazaki og pílagrímsár hans

Haruki Murakami

Þýðing: Ingunn Snædal Bjartur



Hinn japanski Haruki Murakami er einn vinsælasti höfundur veraldar og bækur hans seljast í milljóna upplögum víða um heim. Árlega poppar nafn hans upp í umræðunni um Nóbelsverðlaun í bókmenntum en enn sem komið er hefur hann þó ekki hlotið náð fyrir augum sænsku akademíunnar.

Hinn litlausi Tsukuru Tazaki og pílagrímsár hans er fimmta bók Murakamis sem kemur út hjá Bjarti og sver sig í ætt fyrri bókanna þótt hér sé á ferð mun þroskaðri höfundur en í Spútnik-ástinni til dæmis.

Sagan hverfist um þann örlagaatburð í lífi Tsukuru Tazaki, ungs verkfræðings sem vinnur við að byggja lestarstöðvar, þegar honum er útskúfað úr fimm manna vinahópi stuttu eftir að hann hefur nám í háskóla.

Vinirnir fimm, þrír strákar og tvær stelpur, hafa verið óhemju nánir öll menntaskólaárin og útskúfun Tsukuru kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti enda fær hann engar skýringar á hvað veldur.

Hann gælir við hugsanir um dauðann um hríð, en réttir smám saman úr kútnum og er á sögutíma bókarinnar orðinn 36 ára piparsveinn, nokkuð farsæll í starfi og ágætlega settur í lífinu almennt. Hann hefur lokað á sársaukann sem höfnuninni fylgdi en fyrir tilstilli nýrar kærustu gengur hann í að hafa upp á gömlu vinunum og grafast fyrir um ástæðurnar með nokkuð óvæntri útkomu. Var hann kannski ekki eins saklaust fórnarlamb og hann hafði alltaf haldið?



Eins og svo oft áður er texti Murakamis tilbrigði við ákveðna tónlist sem í þessu tilviki er svítan Pílagrímsárin eftir Franz Liszt, einkum verkið Le mal du pays, heiti sem Murakami segir að skilgreina megi sem „ástæðulausa depurð sem sveitalandslag kallar fram í hjarta einstaklings“ (bls. 50). Þetta verk verður táknrænt fyrir þrá Tsukurus eftir því eina heimalandi sem honum finnst hann hafa átt; vináttunni sem glataðist.

Litir leika einnig stórt hlutverk í textanum sem helgast af því að nafn Tsukurus er hið eina í vinahópnum sem ekki táknar einhvern lit. Hann upplifir sig sem litlausan, óáhugaverðan einstakling sem lítið hafi fram að færa í lífinu og í raun er hann prótótýpa hins venjulega manns sem ekki tekst á við áföll heldur breiðir yfir og sættir sig við og reynir að böðlast áfram sem best hann má þrátt fyrir tómarúm hið innra.

Hvort rótunin í fortíðinni skili honum á betri stað er óljóst, en í það minnsta hefur hann tekið frumkvæði og gert eitthvað í því að finna skýringar. Það er þó allavega eitthvað.

Skýringarnar eru reyndar allar hinar óljósustu og lesandinn litlu nær um orsakir atburðarásarinnar við enda sögu, en næmi og mannskilningur Murakamis valda því að ómögulegt er annað en að sogast inn í söguna og maður les hana nánast eins og spennusögu, enda nýtir höfundurinn sér ýmis brögð úr þeirri bókmenntagrein til að knýja söguna áfram.

Það er þó fyrst og fremst textinn sjálfur sem hrífur, ljómandi af tónlist, litum og listilega dregnum myndum sem komast vel til skila í læsilegri þýðingu Ingunnar Snædal.



Niðurstaða: Murakami í fantaformi. Bók sem unun er að lesa og vekur fleiri spurningar en hún svarar. Staðgott hugsanafóður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×