Gagnrýni

Gagn­rýni ársins 2025: Jólahelvíti, ó­merki­legir þættir og von­brigði á stóra sviðinu

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Gagnrýni um Vigdísi, Julevenner, Storm og Felix og Klöru var með þeim mest lesnu á síðasta ári.
Gagnrýni um Vigdísi, Julevenner, Storm og Felix og Klöru var með þeim mest lesnu á síðasta ári.

Helvíti Emmsjé Gauta í Breiðholtinu, leiðinlegir þættir á Rúv og mislukkaðar sýningar á stóra sviðinu voru meðal þess sem vöktu athygli í gagnrýni á Vísi á liðnu ári. Vísir hefur tekið saman mest lesnu gagnrýnina, þá bestu og þá hörðustu á síðasta ári auk þess að stikla á fjölda þeirra dóma sem birtust á vefnum.

Á árinu sem er að líða birtist fjölbreytt gagnrýni á Vísi, alls 68 dómar um leikhús, tónleika, kvikmyndir. sjónvarp og eina bók. Á Leikjavísi birtist umfjöllun og gagnrýni um tölvuleiki en ekki verður komið inn á hana hér.

Tíu mest lesnu dómar ársins

Mest lesni dómur ársins var jafnframt með þeim síðustu en þar skellti Jónas Sen sér á Julevenner Emmsjé Gauta og var hneykslaður. Dómar eftir Magnús Jochum um seríurnar Vigdísi og Felix og Klöru vöktu sömuleiðis mikla athygli, semog dómur Símonar Birgissonar um söngleikinn Storm.

  1. Helvíti á jörðu: Emm­sjé Gauti minnti á líkams­ræktarþjálfara í maníu
  2. Ómerkilegir þættir um merkilega konu
  3. Aðeins of leiðinlegt til að vera skemmtilegt
  4. Stormur fellur á prófinu
  5. Bragðlaust eins og skyr með sykri
  6. Car­mina Burana sem maður vill helst gleyma – hvað fór úr­skeiðis í Hörpu?
  7. Upphitaðir afneitunarafgangar Frosta
  8. Jólatón­leikar eru ekki tón­list. Þeir eru neyðarað­gerð
  9. Kynferðislega ófullnægður forstjóri finnur sér ungan graðfola
  10. Ekki er allt gull sem glóir

Átta hörðustu dómar ársins

Kjartan Kjartansson var harðastur í gagnrýninni í ár og gaf bókinni Hitamál eftir Frosta Sigurjónsson núll stjörnur. Fyrrnefndur Emmsjé Gauti fékk eina stjörnu líkt og einleikurinn Þetta er gjöf. Endurgerð Disney á Mjallhvíti fékk einungis hálfri stjörnu meira.

  1. Upphitaðir afneitunarafgangar Frosta: Núll stjörnur
  2.  Helvíti á jörðu: Emm­sjé Gauti minnti á líkams­ræktarþjálfara í maníu: Ein stjarna
  3. Ekki er allt gull sem glóir: Ein stjarna
  4. Spegill, spegill, herm þú mér, hve léleg endurgerðin er: Ein og hálf stjarna
  5. Litríkar umbúðir en lítið innihald: Tvær stjörnur
  6. Illa bruggaðar Guðaveigar: Tvær stjörnur
  7. Sam­bands­laus Hamlet: Tvær stjörnur
  8. Vonlaust í víkinni: Tvær stjörnur

Fimm stjörnu dómar ársins

Gagnrýnendurnir voru misörlátir á fimm stjörnu dóma. Allt í allt voru þeir níu talsins, fimm frá Jónasi, tveir frá Símoni og tveir frá Magnúsi.

  1. Bry­an Adams breytti Eld­borg í grát­kór ís­lenskra karla

  2. Eld­borg breyttist í vél­rænt helvíti

  3. Fleetwood Mac: Þegar eftir­líkingin verður betri en raun­veru­leikinn

  4. Freðinn faðir, fáránlegir fasistar og fyrsta flokks bíó

  5. Friðrik Ómar bauð upp á sveppi – og Villi hefði elskað það!

  6. Kaldrifjað morð, ungar karlrembur og kæfandi andrúmsloft

  7. Leik­sigur Ladda

  8. Móðurmorð í blóðugu jólaboði

  9. Shine on, you crazy Ís­lendingar!

Hér fyrir neðan er síðan stiklað á 52 dómum sem birtust á síðasta ári, farið er í gegnum listann í tímaröð eftir mánuðum.


Janúar - Kynlíf, drykkja og vonbrigði

Byrjað á getuleysi

Í einum fyrsta dómi ársins tók Símon Birgisson leikhúsgagnrýnandi fyrir Yermu, jólasýningu Þjóðleikhússins, eftir Federíco García Lorca í nútímabúningi Simon Stone og leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar. Dómurinn hét „Getuleysi á stóra sviðinu“ og gaf Símon leikritinu þrjár stjörnur.

„Það er í sjálfu sér virðingarvert að Þjóðleikhúsið taki áhættu með uppsetningu á jafn dimmu verki og Yerma sem jólasýningu hússins. Það er ekki víst að þessi sýning sé allra en virkar kannski sem ágætis mótvægi við gleðileikina Eltum veðrið og Frost sem hafa ráðið ríkjum á stóra sviðinu í vetur. Ég hefði hins vegar kosið að sjá aðra nálgun á uppsetningu verksins og finnst leikaravalið umhugsunarefni. Gísli Örn er einn af okkar mest spennandi leikstjórum en kannski var þetta leikrit ekki það rétta til að hans hæfileikar fái að njóta sín,“ skrifaði hann um sýninguna.

Úr getuleysi í kynferðislega ófullnægingu

Erótíski spennutryllirinn Babygirl var með fyrstu kvikmyndunum til að koma í bíóhús á Íslandi árið 2025. Gagnrýnandi Vísis skellti sér á hana og skrifaði fjögurra stjörnu dóminn „Kynferðislega ófullnægður forstjóri finnur sér ungan graðfola“ sem vakti athygli.

„Hressandi erótískur spennutryllir um samband kynferðislega ófullnægðs forstjóra við ungan starfsnema sem frelsar hana kynferðislega gegnum BDSM-kynlíf. Spurningin er bara hvað kostar frelsið?“ skrifaði hann um myndina.

Kidman væri óumdeilanleg stjarna myndarinnar en hinn ungi Dickinson gæfi henni ekkert eftir. Handritið hökti aðeins fyrir rest þegar þarf að binda hnút á fléttuna en reynist vel á heildina litið.


Prestar á rassgatinu

Gagnrýnandi Vísis var ekki eins ánægður með Guðaveigar eftir Örn Marinó Arnarson og Þorkell S. Harðarson með Hilmi Snæ Guðnasyni, Halldóri Gylfasyni, Þresti Leó Gunnarssyni, Sverri Þór Sverrissyni og Vivian Ólafsdóttur í aðalhlutverkum. 

Myndin fjallar um fjóra íslenska presta sem fara til Spánar í leit að nýju messuvíni fyrir þjóðkirkjuna. Bílstjórinn forfallast og barnabarn hans, ung kona með drykkjuvandamál, kemur í ferðina í hans stað. Prestarnir sötra vín og lenda í hremmingum.

„Guðaveigar er skemmtileg hugmynd sem líður fyrir lélegt handrit og hroðvirknisleg vinnubrögð. Myndin einkennist af endurtekningarsömum bröndurum, letilegri persónusköpun og allt of mörgum þarflausum uppfyllingarsenum. Þrátt fyrir það er myndin oft og tíðum fyndin. Fólk sem er í leit að heilalausri íslenskri skemmtun, rassabröndurum og aulahúmor ætti því ekki að vera svikið,“ skrifaði hann.


Bragðdauf og langdregin

Næsta leiksýningin sem Símon kíkti á var Ungfrú Ísland í Borgarleikhúsinu. Þar var búið að aðlaga skáldsögu Auðar Övu að stóra sviðinu í leikstjórn Grétu Kristínar Ómarsdóttur með Írisi Tönju Flygenring, Birnu Pétursdóttur, Fannari Arnari Arnarssyni og Hirti Jóhanni Jónssyni.

Símon var vægast sagt ósáttur og skrifaði tveggja stjörnu dóminn „Lit­ríkar um­búðir en lítið inni­hald“. Fannst honum sagan henta illa fyrir leiksvið og sárlega vanta meiri dramatík og dýpt til að verkið snerti við áhorfendum.

„Ungfrú Ísland er stór sýning byggð á verðlaunaðri bók sem hentar þó illa fyrir leiksviðið. Leikarar standa sig vel og umgjörð verksins er til fyrirmyndar. Sýningin líður fyrir misheppnaða leikgerð og eftir hlé var manni hreinlega farið að leiðast þófið. Listrænir stjórnendur gera sitt besta en leikgerðin er allt of trú bókinni og um þriggja tíma löng sýningin verður á köflum langdregin og bragðdauf,“ skrifaði Símon í niðurstöðukafla dómsins.


Vesturport og Vigdís fengu skell

Umtalaðasta gagnrýni janúarmánaðar var þó án efa þriggja stjörnu dómurinn um sjónvarpsþættina Vigdísi, ekki síst vegna fyrirsagnarinnar: „Ómerkilegir þættir um merkilega konu“. 

„Fyrir fólk sem dáir Vigdísi Finnbogadóttur mun Vigdís slá rækilega í gegn. Fyrir áhugasama og forvitna um forsetann fyrrverandi vekur þáttaröðin örugglega enn meiri forvitni. Heilt yfir verður serían þó að teljast vonbrigði og má þar kenna átakalítilli sögu um,“ sagði í dóminum.

Mikið væri lagt í framleiðslu, búninga og gervi, leikmyndin væri sannfærandi og tónlistin fín. Leikarar seríunnar fengu líka góða umsögn, sérstaklega aðalleikkonurnar Elín Hall og Nína Dögg Filippusdóttir en einnig Kristín Þóra Haraldsdóttir, Sigurður Ingvarsson og Ísadóra Bjarkardóttir.

„Það sem dregur úr ágæti Vigdísar er handritið og uppbygging þáttanna. Sambönd persóna eru ekki þróuð nægilega til að ákveðnar vendingar hreyfi við manni. Sömuleiðis tekst ekki að búa til nægilega mikla spennu þegar þess þarf. Vigdís þroskast ekkert sem persóna og skortir breyskleika til að verða trúanleg persóna. Stóra spurningin sem ákvarðar hvort ævisögulegt efni heppnast eða ekki er: „Myndi ég nenna að horfa áfram ef þetta væri um skáldaða persónu en ekki alvöru manneskju?“ Svarið í tilfelli Vigdísar er því miður: Nei.“


Febrúar - Lögreglukórinn, eftirlíking og apakettir

Þegar eftir­líkingin verður betri en raun­veru­leikinn

„Það var mánudagskvöld í Reykjavík, dagurinn sem flestir telja leiðinlegasta dag vikunnar – en ekki þetta kvöld. Í Hörpu beið tónlistarveisla sem átti eftir að sanna að mánudagar geta verið töfrandi. Rumours of Fleetwood Mac, frægasti Fleetwood Mac-eftirlíkingarhópur í heimi, var mættur á svið Eldborgar, og væntingarnar voru stórar. Ég meina, ef Mick Fleetwood sjálfur hefur gefið þeim blessun sína, þá hlýtur þetta að vera eitthvað,“ skrifaði Jónas Sen í upphafi fimm stjörnu dóms sín um tónleika eftirlíkingabandsins.

„Þegar síðustu tónarnir hljómuðu í salnum, var ekki sála sem vildi yfirgefa Hörpu. Áheyrendur stóðu upp og klöppuðu eins og þeir væru að bíða eftir aukalagi á raunverulegum Fleetwood Mac-tónleikum. En staðreyndin var sú – þetta VAR raunveruleg upplifun. Rumours of Fleetwood Mac náðu ekki bara að spila lögin af ótrúlegri nákvæmni, heldur veittu þau okkur líka þá tilfinningu að við værum þátttakendur í einhverju stærra.“


Tveir apakettir í bobba, Robbie og Bobby

Kvikmyndagagnrýnandi Vísis ákvað að bjóða lesendum Vísis upp á tvo fyrir einn þegar hann skellti sér á ævisögumyndirnar A Complete Unknown og Better Man. Um var að ræða tvær ævisögulegar myndir um heimsfræga tónlistarmenn en aftur á móti voru áhrif þeirra ólík.

„Munurinn á myndunum liggur einna helst í muni á kjarki og sköpunarkrafti. A Complete Unknown er flott períóda með góðum leikurum en hún tekur enga sénsa, skortir dýpt og átök og er ekki mjög eftirminnileg. Better Man er aftur á móti uppfull af fantasískum bíótöfrum og undursamlegum tónlistaratriðum auk þess sem hún hefur eitthvað að segja um frægðina,“ sagði í dóminum.

Dylan fékk þrjár stjörnur en Williams fékk fjórar.

„Meðan Dylan rausar yfir pressunni sem fylgir því að vera frægur þá birtist frægðin í Better Man sem eyðileggjandi afl sem eitrar fyrir þeim sem gæta sín ekki. Williams lendir í þeytivindunni og er heppinn að hún tætir hann ekki í sundur. Dylan-myndin er eins og að fara á góða tribute-tónleika, fínasta skemmtun, en Williams-myndin er eins og að fara á Cirque de soleil, einstök upplifun.“


Fyrirsjáanlegur fjölskylduharmleikur

Næsta leikritið sem Símon kíkti á var íslenska leikverkið Heim eftir Hrafnhildi Hagalín í leikstjórn Magnúsar Geirs Þórðarsonar Þjóðleikhússtjóra með þeim Sigurði Sigurjónssyni, Margréti Vilhjálmsdóttur, Selmu Rán Lima, Almari Blæ Sigurjónssyni, Kristínu Þóru Haraldsdóttur og Hilmari Guðjónssyni.

Sagði Símon að sýningin væri ekki fullkomin en fyrir unnendur íslenskrar leikritunar væri hún alveg þess virði að sjá.

„Heim er dramatískt verk um fjölskylduharmleik og leyndarmál eftir eitt af okkar betri leikskáldum. Sýningin líður fyrir að vera fyrirsjáanleg og nær ekki því risi sem mögulega býr í verkinu. Leikstjórnin hefði mátt vera skýrari og áherslan á grínið var á kostnað alvarlegri atriða. Leikarar stóðu sig ágætlega en Kristín Þóra Haraldsdóttir stóð upp úr og átti stjörnuleik.“


Fönguðu hjarta gagnrýnanda

Jónas Sen kíkti á tónleika Lögreglukórsins og Sniglabandsins sem héldu upp á sameiginlegt afmæli í Silfurbergi í Hörpu föstudaginn 14. febrúar.

„Ef einhver hefði sagt mér fyrir ári að ég myndi sjá Lögreglukórinn og Sniglabandið saman á sviði að halda upp á afmælin sín, hefði ég líklega spurt hvort þetta væri draumur eftir of margar ostapítsur. En eftir á að hyggja bar vel í veiði. Vinkona mín var sektuð um daginn fyrir að tala í síma undir stýri. Ég bauðst til að ná fram hefndum með því að skrifa fjandsamlegan dóm um löggurnar í kórnum. Strax á fyrstu tónunum var þó alveg ljóst að hefndin myndi fara út um þúfur,“ sagði í upphafi dómsins.

Kórinn væri einfaldlega „allt of skemmtilegur“ og minnti á „barnakór á sterum“ því hann söng feimnislaust af svo mikilli tilfinningu og án þess að vera meðvitaður um sjálfan sig.

„Tónleikarnir voru ekki aðeins skemmtileg blanda af tónlist og húmor heldur einnig óvænt áminning um að þessi dásamlega listgrein getur sameinað ólík öfl og skapað hreina gleði. Lögreglukórinn og Sniglabandið komu, sáu og sigruðu og útkoman var ógleymanleg kvöldstund.“


Mars - Fimm stjörnu Laddi, slappur Stormur og ofbeldi unglinga

„Þarf ekki að vera flókið, þarf ekki að vera fínt“

Símon skellti sér á Innkaupapokann eftir leikhópinn Kriðplei í febrúarlok. Þar voru í aðalhlutverkum Ragnar Ísleifur Bragason, Friðgeir Einarsson, Saga Garðarsdóttir, Árni Vilhjálmsson, Ragnheiður Maísól Sturludóttir & Sigrún Hlín Sigurðardóttir.

„Innkaupapokinn er frekar látlaust heiti á tilfinningaþrungnu og litríku leikverki sem byggir á gömlu leikriti Elísabetar Jökulsdóttur – Mundu töfrana. Leikritið gengur í endurnýjun lífdaga í samstarfi við leikhópinn Kriðpleir. Áhorfendur fylgjast með glímu leikhópsins við að finna leiðina í gegnum völundarhúsið sem leiktexti Elísabetar er en í seinni hluta sýningarinnar er leikritið sjálft sett á svið. Afraksturinn af þessu sérstaka samvinnuverkefni er leikhúskvöld sem líður manni seint úr minni,“ sagði í dómi Símonar.

„Það sem ég upplifði á sýningu leikhópsins Kriðpleirs var áminning um að leikhús þarf ekki að vera flókið, þarf ekki að vera fínt, þarf ekki einusinni að hafa strúktúr. Það þarf bara að vera heiðarlegt, einlægt og satt og ef það er til staðar þá munu töfrar leikhússins taka yfir og ráða ferðinni. Verkið sem aldrei fékkst sett upp rataði loksins til áhorfenda og höfundurinn fékk þá virðingu sem hún á skilið.“


Laddi lofsunginn

„Hver er Laddi? Hver er maðurinn á bak við grímuna? Á bak við persónurnar sem eru löngu orðin hluti af þjóðarvitund Íslendinga? Þetta eru nokkrar af þeim spurningum sem stórsýningin Þetta er Laddi reynir að svara í gegnum leik, dans, söng og grín,“ skrifaði Símon í fimm stjörnu dóminum „Leik­sigur Ladda“.

„Afleiðingin er einskonar tímavél þar sem áhorfendur ferðast gegnum merkilegt tímabil í sögu þjóðarinnar og við kynnumst ekki bara Ladda heldur líka okkur sjálfum. Þetta er hugrökk sýning, full af gleði en líka alvöru. Mitt í hringiðunni er svo Laddi sjálfur sem gerir það sem fæstir bjuggust kannski við að myndi gerast – hann fellir grímuna og úr verður eitt eftirminnilegasta leikhúskvöld sem ég upplifað í langan tíma.“

Símon lýsti leikritinu sem miklum sigri fyrir Borgarleikhúsið.

„Það er ekkert lítið afrek sem hefur verið unnið með þessari sýningu. Höfundum verksins tekst að búa til leikhús sem uppfyllir bæði væntingar manns en snýr einnig upp á þær. Það eru spennandi leikhúslegar pælingar í verkinu, sviðsmyndin kemur sífellt á óvart og öll umgjörð, búningar, ljós og leikmunir eru upp á tíu. Það verður líka að hrósa leikhópnum sem er ótrúlega þéttur. Hvort sem það er Ásthildur Úa, Katla Margrét, Birna Pétursdóttir eða aðrir í hópnum, þau standa sig öll vel og hafa gert í þeim sýningum sem ég hef séð í Borgarleikhúsinu í vetur.“


Byrjendabragur á stóra sviðinu

Eftir að hafa lofað Ladda í hástert kíkti Símon á söngleikinn Storm eftir Unni Ösp Stefánsdóttur og tónlistarkonuna Unu Torfadóttur og var ekki eins hrifinn.

„Þetta er sýning sem á höfða til ungs fólks og fjalla um veruleika þeirra. Þjóðleikhúsið teflir djarft því í aðalhlutverki er ung söngkona án reynslu af leik á stóra sviðinu og í öðrum hlutverkum eru tiltölulega nýútskrifaðir leikarar úr Listaháskólanum. Þessi tilraun er djörf en niðurstaðan því miður nokkuð fyrirsjáanleg – með hóp af byrjendum á leiksviði er byrjendabragur á sýningunni,“ skrifaði hann í tveggja og hálfrar stjörnu dómi.

„Boðskapurinn í Stormi er sá að þú átt að fylgja hjartanu og gera það sem þig langar til. Ef þú gerir það mun allt ganga upp. Þetta er fallegur boðskapur og kannski það sem er mest í anda okkar tíma í sýningunni. En veruleikinn er hins vegar sá að allir geta ekki allt. Það eru ekki allir leikskáld og ekki allir leikarar – þrátt fyrir að langa til þess. Unnur Ösp er hæfileikaríkur leikstjóri en það er mikil áskorun að bæði leikstýra og semja söngleik. Ég held að Stormur hefði getað orðið mun betri sýning ef til dæmis reynslumikið leikskáld hefði komið að handritsgerðinni,“ skrifaði hann.


Stórskemmtileg strípibúlluást

Bíógagnrýnandi Vísis missti af rómantísku dramedíunni Anoru þegar hún kom fyrst í bíó seinni hluta árs 2024. Myndin fékk byr undir báða vængi þegar hún sópaði upp hverri verðlaunahátíðinni á fætur annarri í byrjun árs 2025 og fékk á endanum Óskarsverðlaun sem besta mynd. Fyrir vikið hélst hún lengi í bíó sem gagnrýnandi nýtti sér. Úr varð fjögurra stjörnu dómurinn „Strípibúlluást sem hleypir öllu í háa­loft“.

„Anora er bráðskemmtileg poppuð ódysseifsför uppfull af litríkum karakterum og eftirminnilegum senum. Myndin hefst á lífsglöðum raunveruleikaflótta, fer þaðan yfir í farsakennt ferðalag um næturhverfi New York-borgar og endar í sorglegum raunveruleikanum. Baker stýrir flæði myndarinnar vel og fangar New York frábærlega að vetri til,“ sagði í dóminum.

Helsti styrkleiki myndarinnar væri fjölbreytt persónugallerýið með leikkonuna Mikey Madison fremsta í broddi fylkingar. Eini gallinn væri að persónusköpun fellur dálítið í skuggann á fléttunni þegar líður á myndina.


Þátturinn sem var á allra vörum

Breska framhaldsþáttaröðin Adolescence tók Netflix með trompi í marsmánuði og vakti mikið umtal og umræðu um unglinga, samfélagsmiðla og ofbeldi. Á Vísi fékk serían fimm stjörnur.

„Adolescence eru stórvirki í sjónvarpsþáttagerð hvað varðar handrit, myndatöku, leikstjórn og leik. Áhorfendur verða vitni að því í rauntíma hvaða áhrif hræðilegt morð hefur á gerandann, fjölskyldu hans, jafnaldra og samfélagið. Samfelld myndatakan, sviðsetningin og sterk samtölin búa til einstakt verk,“ sagði í dóminum.

„Hinn ungi Owen Cooper vinnur algjöran leiksigur sem Jamie Miller, grípur áhorfendur strax frá byrjun og heldur þeim í algjörri gíslingu. Stephen Graham er frábær sem tragíski faðirinn Eddie og Erin Doherty á sterka innkomu sem sálfræðingurinn Briony. Þættirnir eiga erindi hérlendis eins og víða annars staðar um heim þar sem ofbeldi meðal ungmenna og skortur á samkennd hefur aukist. Samfélagsmiðlar, félagsleg einangrun og tengslaleysi nútímasamfélags virðast spila þar stóra rullu.“


Vélrænt helvíti sem festi sig í taugakerfinu

Jónas Sen fór á tónleika HAMPARAT í Hörpu 21. mars þar sem hljómsveitirnar HAM og Aparat Organ Quartet leiddu saman hesta sína.

„Margir tala um tónleika sem upplifun, en þetta var ekki það. Þetta var inngrip. HAMPARAT komu, tóku vitund mína, hræddu mig, heilluðu mig, hlógu að mér og skildu mig eftir skítugan, en um leið meira lifandi en áður. Ég veit ekki hvort ég get mælt með þessu. Ég veit ekki heldur hvort ég vil að þetta gerist aftur. En ef það gerist – þá verð ég mættur. Ekki af því ég vil það, heldur af því ég get ekki annað,“ skrifaði  Jónas í fimm stjörnu dóminum „Eld­borg breyttist í vél­rænt hel­víti“.

Hamparat hefði fest sig í taugakerfi Jónasar og hann væri ekki samur eftir tónleikana.

„Tónleikarnir sýndu fram á að tónlist getur verið meira en list – hún getur verið vopn. Hjómsveitin braut niður varnir, tók yfir skynjun og afhjúpaði eitthvað í manneskjunni sem venjulega fær ekki útrás. Þetta var árás á eðlilega skynsemi – og hún heppnaðist fullkomlega. Eldborg breyttist í vélrænt helvíti, og það var unaðslegt.“


Apríl - Mislukkaðar endurgerðir, grátkórar og óperusöngvarar

Kúrekar skugginn af frummyndinni

Símon kíkti á leiksýninguna Fjallabak, sem byggir á bíómyndinni Brokeback Mountain, í Borgarleikhúsinu í byrjun apríl. Verkinu leikstýrði Valur Freyr Einarsson og í aðalhlutverkum voru Hjörtur Jóhann Jónsson og Björn Stefánsson með Esther Talíu Casey, Írisi Tönju Flygenring og Hilmi Snæ Guðnasyni í aukahlutverkum.

Símoni fannst spennandi hugmynd að setja Brokeback Mountain upp sem leikrit og fannst vel gert hjá Borgarleikhúsinu að gefa sögum samkynhneigðra vægi í verkefnavalinu 2025. Þá væri ekkert við aðalleikarana að sakast sem væru hugrakkir í nálgun sinni en sýningin væri þó of löng.

„Stærsti gallinn er þó að þessi epíska ástarsaga náði aldrei fullum hæðum og maður hafði ekki nægilega samkennd með persónum verksins. Því miður er leikritið bara skugginn af kvikmyndinni sem maður óhjákvæmilega er alltaf með í höfðinu,“ skrifaði hann.


Katastrófísk endurgerð á klassík

„Endurgerð Mjallhvítar er hrein katastrófa frá A til Ö, allt frá upphafi framleiðslunnar til lokagerðar myndarinnar. Disney vill halda nostalgíu gömlu myndarinnar en samt vera í takt við breytta tíma. Í staðinn er farinn glataður millivegur sem leiðir til innantómrar eftirlíkingar,“ sagði í eins og hálfrar stjörnu dóminum „Spegill, spegill, herm þú mér, hve léleg endurgerðin er“.

„Breytingar á sögunni eru máttlausar, persónusköpun er grunn og átök sögunnar kraftlítil. Þar fyrir utan er öll myndin þakin gervilegri slikju hvort sem um er að ræða dvergana sjö, myndatöku og lýsingu, leikmynd og búninga eða sönginn sem búið er að eiga alltof mikið við,“ sagði í dóminum.

„Disney hefur alltaf verið peningamaskína en líka framleitt stórkostlegar myndir í gegnum tíðina. En nú er hún Snorrabúð stekkur. Nostalgía selur og fyrirtækið mun halda áfram að dæla út ómerkilegum endurgerðum sama hvað það kostar. Kannski fáum við endurgerð af endurgerðinni eftir nokkur ár. Vonandi verður sú Mjallhvít ekki jafn arfaslök og þessi.“


Dæst af ánægju eftir kvöldstund með óperusöngvurum

Jónas Sen fór á Óperuveislu í Eldborg 3. apríl og hlustaði þar á einsöngvarana Ólaf Kjartan Sigurðarson, Gunnar Björn Jónsson, Kristínu Önnu Guðmundsdóttir og Kristínu Sveinsdóttur syngja með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Mótettukórnum og Kór Langholtskirkju.

„Það er eitthvað sérstakt við óperusöngvara. Þeir eru ekki bara listamenn – þeir eru hávaðamenn með diplómu. Þeir mæta inn í herbergi og það fyllist af nærveru, ilmvatni og örlitlum hroka sem festist í loftinu eins og þykkur rjómi. Þeir tala ekki – þeir lýsa yfir. Ef þeir panta kaffi, þá hljómar það eins og ástarjátning í senu í Toscu,“ skrifaði hann í fjögurra stjörnu dóminum „Þetta er á­stæðan fyrir því að þú átt aldrei að bjóða óperu­söngvara í matar­boð“.

„Þessi tónleikar voru kannski ekki fyrir alla – en þeir voru vissulega fyrir fleiri en þá sem langar bara syngja örlítið of hátt í sturtunni. Fagnaðarlætin voru gífurleg. Ólafur Kjartan er magnaður söngvari, en hann er meira en það. Hann er skemmtikraftur af Guðs náð. Hann hreif ekki bara, heldur lét mann springa af hlátri aftur og aftur. Fólk engdist um. Hinir söngvararnir voru líka flottir. Þetta var svo sannarlega veisla, og maður fór ekki heim með meltingartruflanir, heldur klappaði sér á kúluvömbina og dæsti af ánægju.“


Grátkór íslenskra karla

„Það er til ákveðin tegund af íslenskum karlmanni sem fær kökk í hálsinn við fyrstu línuna í „Heaven“ eftir Bryan Adams og segir þá: „Æ, þetta lag var alltaf í bílnum hjá mömmu.“ Og svo byrjar hann að hugsa um hvað hefði orðið úr honum ef hann hefði farið í nám í stað þess að byrja bara í bílaviðgerðum með Gumma frænda,“ sagði í fimm stjörnu dómi Jónasar Sen um tónleika Bryans Adams í Hörpu.

„Adams er nefnilega ekki einungis tónlistarmaður. Hann er samnefnari allra þessara duldu tilfinninga sem vakna þegar gamla kærastan dúkkar upp í Krónunni og maður þykist vera að skoða sósur. Hann er maðurinn sem kenndi heilli þjóð að það væri í lagi að öskra nafnið hennar út um bílrúðuna, jafnvel þótt hún hefði farið til Danmerkur með garðyrkjumanni,“ sagði einnig í dóminum.

Tónleikarnir hefðu ekki bara verið tónlistarviðburður heldur tilfinningalosun þar sem lögin urðu að farvegi fyrir allt það sem aldrei var sagt upphátt. 


Maí - Páfakjör og kórdómurinn sem hneykslaði

Klíkur og klækir

Óskarsverðlaunamyndin Conclave sem fjallaði um æsispennandi páfakjör var frumsýnd árið 2024 en Íslendingar fengu bara stuttan glugga til að sjá hana. Svo dó Frans páfi og myndin sneri aftur í bíóhús í maí 2025 um það bil þegar páfakjör hófst.

Conclave er þrusugóður pólitískur spennutryllir með þéttu handriti, sterkri leikstjórn og unaðslegri myndatöku. Helsti styrkur myndarinnar er að geta fetað fullkominn milliveg milli dramatískra samræðna, hasars og húmors,“ sagði í fjögurra og hálf stjörnu dóminum „Klækir, prettir og kardínálaklíkur í páfakjöri“.

„Myndin veitir innsýn inn í heim sem er vanalega hulinn venjulegu fólki, æðsta lag kaþólsku kirkjunnar. Við sjáum kardínálana kýta, slúðra og koma sér loks saman um nýjan leiðtoga. Kannski eru þeir ekki svo ólíkir okkur hinum.“


Dómurinn sem skók kóraheiminn

„Það er eitthvað skrýtið við íslenska kórmenningu. Kannski er það hve kórtónleikar eru gamaldags - a.m.k. fyrir yngri kynslóðina - kannski endalausi tenóraskorturinn, eða kannski sú staðreynd að hér hefur þróast sérkennilegur menningarheimur þar sem fólk mætir í náttfötum úr Joe Boxer til að syngja með útöndun eins og gamalt gufuskip. Meira um það hér rétt á eftir.“

Þannig hófst tveggja og hálfrar stjörnu dómur Jónasar Sen um flutning Söngfjelagsins og Kórs Akraneskirkju á Carmina Burana eftir Carl Orff undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar í Norðurljósasal Hörpu.

„Kórinn er eini staðurinn þar sem miðaldra einstaklingar stíga fram og láta eins og þeir séu listamenn, án þess að fá greitt eða hljóta nokkra viðurkenningu. Þetta er líka eini staðurinn þar sem fólk getur tamið sér sektarkennd yfir því að hafa misst af æfingu vegna þess að það stakk af frá sjúkum ættingja. „Ég komst ekki á síðustu æfingu því pabbi fékk hjartaáfall.“ – „Já, en við æfðum nýja útsetningu á miðhlutanum í Á Sprengisandi. Forgangsröðun! Guðrún.“

„Svo eru það kórferðalögin. Ódauðleg hefð þar sem hópur fullorðins fólks sefur á svefnpokadýnum í íþróttahúsum, drekkur vín í plastglösum og fær sér „einn lítinn“ sem verður að djúpum persónulegum harmleik um þrjúleytið. Alltaf hendir einhver í afsökunar-ræðu daginn eftir. Og ávallt verður einhver hrókur alls fagnaðar sem aðrir kórfélagar forðast næstu fjögur árin,“ skrifaði hann einnig.

Á heildina litið var flutningur kóranna á Carmina Burana fremur máttlaus að mati Jónasar. Tæknilegir brestir í kórsöng og stjórn, þunglamalegur einsöngur og misheppnuð sviðsetning hefðu dregið úr áhrifamætti verksins stórbrotna. 

Dómurinn vakti gríðarlega athygli í samfélaginu, ekki síst hjá kórsöngvurum. Helga Margrét Marzellíusardóttir, formaður félags íslenskra kórstjóra, gagnrýndi dóm Jónasar harðlega og sagðist biðja um fagmennsku og kurteisi. Jónas sagði aftur á móti að það hefði ekki verið ætlun hans að særa neinn heldur aðeins hrista upp í umræðunni eins og gagnrýni eigi að gera.


Júní - Vonbrigði í bíó og draugur Stalíns

Brast nærri í grát yfir messunni

Leikhúsin tóku sér frí yfir sumarið líkt og vanalega og Símon leikhúsgagnrýnandi gerði það líka. Ekkert lát var þó á útgáfu kvikmynda og tónleikahaldi. Jónas Sen fór 2. júní í Hafnarfjarðarkirkju að hlusta á Barbörukórinn frumflytja tónverkið Messu eftir Auði Guðjohnsen. 

„Messan eftir Auði er hrífandi tónsmíð, enda var standandi lófatak í lokin. Það er þó ekki hægt að kalla messuna tímamótaverk, til þess er hún ekki nægilega frumleg eða djörf í heildina. Í því samhengi má nefna ýmis önnur íslensk kórverk, svo sem Passíuna eftir Hafliða Hallgrímsson á sínum tíma, sem var virkilega krassandi. Nokkrir kaflar komu engu að síður á óvart eins og áður sagði,“ sagði í fjögurra og hálfrar stjörnu dómi Jónasar.

„Þegar tónskáldinu virkilega liggur svona mikið á hjarta, eins og greinilegt var hér, þá breytir í rauninni engu hvort tónmálið er hefðbundið eða ómstrítt. Tónmál fyrri alda er tungumál Auðar, og greinilegt er að hún er hæfileikaríkt tónskáld. Spennandi verður að heyra meira eftir hana í framtíðinni.“


Konungur bíósins veldur vonbrigðum

Síðasti kaflinn í Mission Impossible-myndaröð Tom Cruise kom út síðasta sumar og reyndist vonbrigði eftir röð góðra mynda.

„Framleiðendur Mission: Impossible nýta lokamyndina til að hylla fyrri myndir og missa um leið sjónar á því hvað gerir seríuna frábæra. Óþörf endurlit, upprifjanir og klisjukenndar endurtekningar draga framan af úr skemmtanagildi myndarinnar. Stórkostlegur seinni helmingur bjargar myndinni algjörlega. Tvö áhættuatriði sprengja skalann og á sama tíma tekst að halda tveimur þráðum gangandi sem greinast í þrjá undir lokin en slitna ekki,“ sagði í þriggja stjörnu dómi gagnrýnanda.

„Þrátt fyrir vonbrigði fyrri helmingsins er Final Reckoning góð viðbót við eina bestu hasarmyndaseríu allra tíma og mögnuð bíóupplifun sem fær mann til að nötra og skjálfa af spennu í sætinu. Aðdáendur seríunnar verða heldur ekki sviknir: Við sjáum Tom Cruise hlaupa, við fáum gamla bandið og tvö sturluð áhættuatriði. Nú bíður maður bara spenntur eftir því að sjá hvað Tom Cruise, bjargvættur hvíta tjaldsins, tekur sér fyrir hendur næst.“


Stalín lifnaði við og kórnum bauðst vodka

Eftir íslensku messuna fór Jónas Sen næst á tónleika Geneva Camerata í Eldborg í Hörpu 14. júní þar sem flutt voru verk eftir Mastrangelo og Sjostakóvitsj. Ekki nóg með að tónleikarnir hefðu verið góðir heldur upplifði Jónas draug Stalíns lifna við á sviðinu.

„Stalín dó 1953, en hann var ansi lifandi þarna á sviðbrúninni, fyrir vikið. Ekki sem húsbóndi heldur sem draugur fortíðar sem tónlistin vakti upp. Og kannski sem kaldhæðinn listgagnrýnandi sem glotti yfir sínum eigin hræðsluáróðri,“ sagði Jónas í fjögurra stjörnu dómi sínum.

„Það er nefnilega ekki á hverjum degi sem maður sér sinfóníu túlkaða með skrúðgöngu, draug að reykja pípu og krumpdansi – og upplifir í leiðinni tónverkið eins og það væri nýtt. Geneva Camerata fær fjórar stjörnur – og vodkaflösku að auki.“


Engin rómantík og ekkert gaman

Undir lok júnímánaðar kíkti bíógagnrýnandi á rómantísku gamanmyndina Materialists eftir Celine Song með Dakota Johnson, Pedro Pascal og Chris Evans. Myndin fjallar um ástarþríhyrning hjónabandsmiðlara, ríks fjárfestis og fátæks leikara. 

„Myndina skortir þó tvennt: gamanið og rómantíkina. Eftir stendur mynd um grunnhyggið, óspennandi og leiðinlegt fólk,“ sagði í tveggja og hálfrar stjörnu dóminum „Neistalaus trekantur leiðinlega fólksins“.

„Myndin vekur vissulega upp ýmsar spurningar um efnishyggju, stefnumótamenningu nútímans og hvernig við metum ástina til fjár. Song er hins vegar of upptekin af pælingum sínum og gleymir aðalatriðinu: samböndum og samskiptum aðalpersóna sinna. Hvers virði er rómantísk gamanmynd án gamansins og rómantíkurinnar? Lítils.“


Júlí - Norah Jones, Brad Pitt og Clark Kent

Dáleiðandi svefnlyf Noruh

„Norah Jones hefur kannski ekki fundið upp hjólið, en hún hefur svo sannarlega náð að láta það rúlla mjúklega á flaueli á milli ilmkerta. Þessir tónleikar voru draumur þar sem tíminn stóð í stað, hjartslátturinn róaðist og maður mundi ekki lengur hvort maður var vakandi eða sofandi – en fannst það ekkert verra,“ sagði í dómi Jónasar Sen um tónleika Noruh Jones í Hörpu.

„Dagskráin var vönduð og fjölbreytt, flutningurinn yfirvegaður, stemningin draumkennd og hlý. Það eina sem stóð í vegi fyrir dáleiðandi hughrifum var lýsing og hljóð; ljósameistarinn hefði átt að gleyma sér jafn mikið og áheyrendur. Næst þarf bara að slökkva ljósin, mýkja hljóðkerfið – og hleypa listakonunni að með hugleiðslukennda sólarupprásina sína í friði.“


Áferðarfalleg, klisjukennd þeysireið

„F1 er vel framleidd og áferðarfalleg auglýsing fyrir Formúlu 1, Apple og Brad Pitt. Kvikmynd sem er hönnuð fyrir bíóhús þar sem áhorfendur fá að upplifa hraða og kraft formúlubíla og drunurnar sem þeim fylgja,“ sagði í tveggja og hálfrar stjörnu dómi um kappakstursmyndina F1 með Brad Pitt í aðalhlutverki.

„Sagan er klisjukennd, persónurnar flatar og óhófleg lengd myndarinnar veldur því að F1 missir dampinn þegar líður á. Kosinski nær þó að halda áhorfendum við efnið með góðum hasar, dassi af bíótöfrum og grípandi kvikmyndatónlist Hans Zimmer. Magnaður lokakappakstur gerir að verkum að áhorfendur yfirgefa bíóhúsin fullir adrenalíns. Þegar líkaminn er búinn að jafna sig kemur vont eftirbragðið: F1 skilur ekkert eftir sig.“


Alltílæ Ofurmenni

Leikstjórinn James Gunn skipti yfir úr Marvel til DC og byrjaði á að gera sína útgáfu af Ofurmenninu með David Corenswet og Rachel Brosnahan í aðalhlutverkum. Fannst gagnrýnanda myndin skemmtileg og skrpó en dálítið misjöfn.

„Ýmsir sénsar eru teknir en þeir eru of margir því það tekst ekki að vinna almennilega úr öllum þeim umfjöllunarefnum sem eru tekin fyrir. Líkt og í fyrri myndum sínum tekst James Gunn að skapa lifandi heim fullan af sjarmerandi karakterum. Of oft vantreystir Gunn þó áhorfendum og lætur persónurnar mata áhorfendur með upplýsingum sem tekur mann út úr myndinni,“ sagði í þriggja stjörnu dóminum.

„Ofurmennið er með slakari myndum James Gunn sem þó er einn sá allra færasti í að aðlaga teiknimyndasögur að skjánum. Hugsanlega er það af því stíll hans hentar efniviðnum illa eða þá pressan reyndist einfaldlega of mikil. Þrátt fyrir það gefa ýmsir þættir myndarinnar góða von um það sem framundan er í kvikmyndaheimi DC.“


Ágúst - Útlenskt sem íslenskt grín og hávær grasker

Tvenns konar framtíð grínsins

Tvær framhaldsmyndir sígildra gamanmynda komu út í ágúst, The Naked Gun og Happy Gilmore 2. Gagnrýnandi sá þær báðar og fannst önnur ófrumleg endurnýting á gömlu efni meðan hin væri ferskt framhald sem bryddaði upp á nýjungum.

„Aðstandendur The Naked Gun uppgötvuðu að besta leiðin að góðri framhaldsmynd er ekki endilega að minna stöðugt á þá gömlu. Trikkið er að viðhalda stemmingu og anda þeirrar fyrstu en um leið finna nýja vinkla á efniviðinn. Fyrst og fremst er bara eitt sem skiptir máli: að fá áhorfendur til að hlæja,“ sagði í dóminum um fjögurra stjörnu Naked Gun.

„Adam Sandler fékk ekki þau skilaboð og er fastur í að rifja upp gamlar senur, karaktera og brandara. Happy Gilmore 2 gengur svo mikið út á að fagna afrekum fyrstu myndarinnar að framhaldið nær ekki að blómstra,“ sagði um tveggja stjörnu verk Sandlers.


Skilnaður, kynferðisleg gremja og barnaleikir

„Ástin sem eftir er er fyndin, hjartnæm og óhefðbundin mynd um það hvernig fjölskylda jafnar sig á skilnaði og venst nýjum raunveruleika. Hún er líka krefjandi bútasaumsteppi sem manni finnst á köflum einblína á ranga hluti og draga frá kjarna myndarinnar,“ sagði í fjögurra stjörnu dómi um nýjustu mynd Hlyns Pálmasonar með Sögu Garðarsdóttur og Sverri Guðnasyni.

„Leikhópurinn er einn sá allra sterkasti sem ég man eftir í langan tíma í íslenskri kvikmynd. Saga Garðars virðist fædd fyrir hvíta tjaldið með sinn gríðarlega presens, Sverrir Guðna er sannfærandi sem aumkunarverður og frústreraður faðir en það eru krakkarnir þrír, Ída, Grímur og Þorgils, sem heilla mann hvað mest,“ sagði einnig í dóminum.

Ástin væri ekki fyrir alla en hún innihéldi akkúrat það sem íslenskar myndir skortir alltof oft: „vandaða kvikmyndagerð, eðlileg vel skrifuð samtöl, ferskar pælingar og góðan húmor.“


Einhliða og grimmur hávaðaveggur

„Orkustigið á tónleikunum var óumdeilanlegt og áheyrendur tóku við orkunni og skiluðu henni margfalt til baka með söng, öskrum og hoppandi fótum sem létu Laugardalshöllina titra. Hins vegar var of mikil áhersla á magn og hávaða á kostnað blæbrigða og fjölbreytni,“ sagði Jónas Sen um tónleika Smashing Pumpkins í Laugardalshöllinni 29. ágúst.

Lögin voru soðin saman í eina endalausa sprengju af drunum og öskrum þannig að tónlistin varð að einhliða og grimmum hávaðavegg.

„Þeir sem komu fyrst og fremst til að upplifa hráan kraft og tilfinningalegt „slag í magann“ fengu fyllilega sitt. En þeir sem væntu þess að Pumpkins myndu draga fram eðlislæga sálræna vídd tónlistarinnar og leyfa áheyrendum að týnast í fjölbreyttum tónaheimi stóðu eftir með svolitla tómleikakennd.“


September - Eitthvað fyrir alla

Leiðinlegir íslensk-enskir períóduþættir

Þættirnir King & Conqueror voru teknir upp hérlendis, innihéldu fjölda íslenskra leikara og Baltasar Kormákur leikstýrði fyrsta þættinum og kom að yfirframleiðslu þeirra. Hjá gagnrýnanda Vísis fengu þættirnir þrjár stjörnur.

„King & Conqueror eru því miður heldur óspennandi períóduþættir um eina mestu ólgutíma í sögu Englands. Grunnar persónur ná ekki að hrífa áhorfendur með stirðum samtölum og flakk milli persóna dreifir úr fókusnum frekar en að búa til margradda frásögn,“ sagði í dóminum.

„Lýsing, leikmynd og tæknibrellum er ábótavant sem gefur þáttunum ódýran brag og dregur úr upplifuninni. Einhæfni í staðarvali gerir líka að verkum að maður fær ekki næga tilfinningu fyrir umhverfinu og heimur þáttanna skreppur saman.“


Ísgaurarnir fastir í millibilsástandi

„Eftir hörmulega slappa aðra seríu tekst Ísgaurunum að rétta kúrsinn í þeirri þriðju með beittara gríni og góðum gestaleikurum. Stöku snilldarbrandarar grafast þó undir loftkenndri sögu. Ísgaurarnir virðast fastir í millibilsástandi milli barnaefnis og gríns fyrir fullorðna,“ sagði í þriggja stjörnu dómi um þriðju seríu Ísgauranna.

„Þó maður hlæi inn á milli eru þættirnir samt of langdregnir á köflum. Oft leið mér eins og betri leikstjórn, klipping og tónlistarval hefði getað breytt miklu. Slíkt hefði bætt óspennandi myndatöku, stífan leik og flæði og endurtekin tónlistarstef.“

„Iceguys er greinilega hugsað sem fjölskylduefni sem á að ná til breiðasta mögulega hóps. Þannig festist það eiginlega milli tveggja flokka, gríns fyrir fullorðna og fjölskylduefnis. Með fleiri sénsum hefðu þættirnir getað orðið mun betri grínþættir og á hinn bóginn hefði mátt auka á fíflaganginn fyrir betra fjölskylduefni.“


Lína langsokkur stóð fyrir sínu

Símon sneri aftur með nýjum leikhúsvetri sem hófst af krafti í Þjóðleikhúsinu með frumsýningu á Línu Langsokk eftir Astrid Lindgren. Agnes Wild hélt þar um leikstjórnartauamana með Birtu Sólveigu Söring í fararbroddi öflugs leikhóps.

„Þetta er klassísk barnasýning í fremur hefðbundinni uppfærslu sem ætti að kæta og gleðja bæði börn og fullorðna. Söguna um Línu þekkja flestir vel og er henni fylgt samviskusamlega án þess að verið sé að breyta eða nútímavæða hlutina – sem er gott því auðvelt væri að nýta sér persónu eins og Línu í þeim átökum og klofningi sem einkenna umræðuna á okkar tímum,“ sagði í fjögurra stjörnu dómi um sýninguna.


Tryggð við frumtextann dró úr krafti Eldana

Blaðamannahaukurinn Þórarinn Þórarinsson hljóp í skarðið og skrifaði um hamfaramyndina Eldana eftir Uglu Hauksdóttur með Vigdísi Hrefnu Pálsdóttur, Pilou Asbæk og Jóhannesi G. Jóhannsyni í aðalhlutverkum.

„Ugla Hauksdóttir sýnir með Eldunum heldur betur hvers hún er megnug þegar kemur að persónusköpun og því að magna upp spennu og skilar býsna vel heppnaðri kvikmyndaaðlögun skáldsögunnar Eldarnir. Ástin og aðrar hamfarir, eftir Sigríði Hagalín,“ sagði í þriggja stjörnu dómi hans.

„Tryggðin við frumtextann felur þó í sér þá þversögn að þar mætast helsti styrkur og veikleiki myndarinnar. Samtöl eru á köflum full hátíðleg og orðin falla annarlega stirð af vörum leikaranna. Aðdáendur bókarinnar kunna sjálfsagt að meta að rétt eins og á pappírnum fá tilfinningahamfarir aðalpersónunnar og álagið í aðdraganda yfirvofandi náttúruhamfara ríflegt svigrúm á meðan þau sem ekki þekkja til gæti farið að lengja eftir hamförunum.“


Úr slaufun í lófatak

Jónas Sen fór á tónleika Auðuns Lútherssonar, sem gengur undir listamannsnafninu Auður, í Bæjarbíói 20. september og var afar hrifinn.

„Ég var mættur til að meta tónlistarmanninn, og það er óhjákvæmilegt að minnast á storminn sem gekk yfir fyrir fáeinum árum. Eins og frægt er var Auði slaufað og dómurinn átti að vera endanlegur. Um kvöldið snerist taflið við. Þarna um kvöldið dæmdi salurinn hann eftir tónunum,“ sagði í fjögurra stjörnu dómi.

„Á sviðinu birtist ekki lengur pússaður gulldrengur íslenskrar poppsenu heldur dálítið brothættur töframaður með fagran og fjölbreyttan hljóðheim.“

Auður sýndi vel mótaða og þroskaða hljóðheild, lifandi raddflutning og nákvæma sviðssetningu þar sem smáatriðin drógu stóru söguna fram. Tónleikarnir voru heildstæð, kraftmikil og einlæg sýning.


Nánast allt að einleiknum

Símon kíkti í Borgarleikhúsið á einleikinn Ífígeníu í Ásbrú sem hafði þegar verið sýndur í Tjarnarbíó leikveturinn á undan. Hann sagði leikhúsunnendur ekki mega missa af sýningunni og gaf henni fjórar og hálfa stjörnu. Hann var hins vegaer ekki eins hrifinn af einleiknum Þetta er gjöf með Kötlu Njálsdóttur í Þjóðleikhúsinu.

Þetta er gjöf er einleikur eftir Kolbrúnu Björt Sigfúsdóttir sem var frumsýndur í Skotlandi í sumar en er nú settur upp í Þjóðleikhúsinu þar sem verkið er þýtt og staðfært. Leikritið er nútímaútgáfa af grísku goðsögninni um Mídas konung – sagt frá sjónarhóli dóttur hans,“ sagði í einnar stjörnu dóminum.

„Þrátt fyrir faglega umgjörð nær sýningin þó aldrei flugi og liggur sökin í leiktextanum sjálfum. Sagan er ruglingsleg, persónur næfurþunnar og samfélagslega ádeilan misheppnuð.“


Október - Stórvirki og meðalmennska

Ráin hækkuð með nýjum viðmiðum

Símon skellti sér á stóru sýninguna í Borgarleikhúsinu þann leikveturinn, Moulin Rouge í leikstjórn Brynhildar Guðjónsdóttur með Hildi Völu og Mikaeli Kaaber í aðalhlutverkum. Símoni fannst uppsetningin hækka ránna og setja ný viðmið um hvað er hægt að gera í íslensku leikhúsi. 

„Á sama tíma vakna líka hjá manni spurningar um hvort þetta sé það sem koma skal og hver fórnarkostnaðurinn sé á móti? Ef maður flettir í gegnum dagskrá Borgarleikhússins í vetur eru ekki margar frumsýningar á öðrum verkum en Moulin Rouge og eru þau flest dæmd á minni svið,“ sagði hann jafnframt.

„Borgarleikhúsið tekur með Moulin Rouge áhættu. Og þó að sýningin komi nokkuð klár í póstinum þá er alltaf hægt að klúðra hlutunum. Sú er ekki raunin hér. Ástríða Brynhildar fyrir Frakklandi og París, alveg frá því hún sló í gegn í hlutverki Edith Piaf um árið er áþreifanleg í þessu verkefni.“


„Þetta er stórvirki“

Bíógagnrýnandi Vísis fór að sjá hasardramedíuna One Battle After Another eftir Paul Thomas Anderson með Leonardo DiCaprio, Sean Penn og Chase Infiniti í aðalhlutverkum. Hann var vægast sagt sáttur, gaf henni fullt hús og hvatti fólk til að skella sér í bíó.

„One Battle After Another er aðgengilegasta kvikmynd Pauls Thomas Anderson til þessa, 170 mínútna hasarmynd á epískum skala sem blandar saman ótrúlegri spennu við góðan aulahúmor og beitta ádeilu. Tónlistin er lykilatriði í að búa til þennan þétta hasarhnullung ásamt góðri klippingu, dýnamískri myndatöku og frábærum leik aðalleikara,“ sagði í dóminum.

„Þetta er stórvirki, farið að sjá One Battle After Another í bíó, þið munuð ekki sjá eftir því! Ég er búinn að fara að sjá hana tvisvar og gæti alveg hugsað mér að fara í þriðja sinn áður en hún yfirgefur kvikmyndahús.“


Víma tónleikanna tók sér bólfestu í sálinni

Jónas Sen fór á minningartónleika um Vilhjálm Vilhjálmsson í Eldborg í Hörpu laugardaginn 4. október og var stórhrifinn.

„Minningartónleikarnir voru einstaklega vel heppnaðir. Gleðin, húmorinn og hlýjan voru í forgrunni – alveg eins og Vilhjálmur hefði sjálfur viljað hafa það. Friðrik Ómar leiddi kvöldið af öryggi, söng með ástríðu og lét reyk, sveppi og söng skapa hátt gíraða og stórkostlega stemningu. Karl O. Olgeirsson sá til þess að tónlistin héldi reisn og tilfinningadýpt, og fjölbreyttir gestasöngvarar tryggðu að dagskráin varð aldrei einsleit,“ sagði í fimm stjörnu dóminum.

„Ég gekk út úr Eldborg í vímu – ekki af sveppunum, heldur af söknuði, hlátri og yndislegum minningum um einn skemmtilegasta söngvara Íslandssögunnar.“


Stórskotaliðið olli vonbrigðum

Símon fór með háar væntingar í Þjóðleikhúsið á leikritið Íbúð 10B  eftir Ólaf Jóhann Ólafsson í leikstjórn Baltasars Kormáks með einvalaliði leikara: Birni Thors, Unni Ösp, Nínu Dögg, Gísla Erni, Unnsteini Manúel, Svandísi Dóru, Margréti Vilhjálms og Þresti Leó.

„Baltasar Kormákur snýr aftur í leikhúsið eftir langt hlé. Auðvitað er maður spenntur að sjá hvað hann hefur fram að færa. Það var hins vegar fátt sem var áhugavert, nýtt eða ögrandi í leikstjórninni,“ sagði í þriggja stjörnu dóminum. 

Íbúð 10B ætlar sér að vera allt í senn stofudrama, farsi og pólitísk ádeila. Þrátt fyrir að „tjekka í boxin“ eru skilaboð verksins ekki endilega þau sem listamennirnir ætluðu sér. Tilfinningin sem leikritið vakti hjá mér: Vonbrigði.“


Ekki nógu fyndinn Brjánn

Gagnrýnandi Vísis horfði á sjónvarpsþættina Brján í leikstjórn Sigurjóns Kjartanssonar með Halldóri Gylfasyni, Ilmi Kristjánsdóttur og Steinþóri Hróari í aðalhlutverkum. Þættirnir fjalla um aðdáanda Þróttar sem fær starf aðalþjálfara karlaliðsins óvænt upp í hendurnar.

„Þrátt fyrir frumlega hugmynd, ágætis leikara og sterka byrjun renna grínþættirnir Brjánn fljótt út í sandinn. Þar vegur þyngst skortur á almennilegu gríni og óspennandi framvinda,“ sagði í tveggja og hálfrar stjörnu dóminum.


Nóvember - Hamlet, skyr með sykri og bústaðarhrollvekja

Útvatnaður og sambandslaus amlóði

„Ný uppsetning á Hamlet á að vera stórviðburður í íslensku menningarlífi. Þannig hafa fyrri uppfærslur verið. Þú færð ekki sem leikari mörg tækifæri til að leika titilhutverkið. Þú færð ekki sem leikstjóri betri striga til að mála á og sýna hvers þú ert megnugur,“ sagði Símon Birgisson um hinn sígilda harmleik í dómi sínum um uppsetningu Borgarleikhússins á Hamlet í leikstjórn Kolfinnu Nikulásdóttur.

Þó leikstjórinn ætli sér eflaust stóra hluti næðu áhorfendur ekki að halda þræði. Tilvísanir væru fjölmargar en það vantaði samhljóm við þann heim sem verkið fjallar um.

„Þetta er útvötnuð útgáfa af Hamlet fyrir yngri kynslóðina. Það vantar ekki hugmyndirnar en hamagangurinn er á kostnað fínni blæbrigða verksins. Af leikhópnum er gamla gengið - Hilmir Snær og Sólveig Arnardóttir stjörnur sýningarinnar.“


Hugsaði meira um SÁÁ en Sigvalda Kaldalóns á tónleikunum

„Tónleikarnir í Eldborg voru eins og gamall vinur sem kemur í heimsókn: þægilegur í framkomu, en maður skynjaði undirliggjandi þreytu. Í söng karlakórsins var bergmál af gömlum dugnaði og áræði; raddirnar báru enn vott um ástríðu og samheldni. En þegar Álftagerðishópurinn, fiðlan og hammondinn tóku við, varð allt að hikstandi minningu um það sem eitt sinn var,“ sagði Jónas Sen um tónleika Karlakórsins Heimis, gesta frá Álftagerði og Óskars Péturssonar í Eldborg í Hörpu í byrjun nóvember.

„Þetta var ekki hátíð, heldur nostalgískt augnablik sem minnti á að karlakóramenningin lifir ennþá, en á yfirdrætti. Hún þarf nýtt eldsneyti, ferska rödd og djarfari túlkun til að hrífa aftur, annars verður hún aðeins skrautmunur á safni. Kórinn vildi auðheyrilega gleðja, en náðu aðeins að vekja söknuð. Eða með öðrum orðum: þegar tónleikar láta mann hugsa meira um SÁÁ en Sigvalda Kaldalóns, þá hefur eitthvað farið úrskeiðis.“


Þunnt, endurtekningasamt og hálf kjánalegt

Gagnrýnandi skellti sér á spennutryllinn Víkina eftir Braga Þór Hinriksson með Erni Árnasyni, Margréti Ákadóttur og Leifi Sigurðssyni í aðalhlutverkum.

„Ekki tekst að vekja nægilega spennu eða samúð hjá áhorfendum í spennutryllinum Víkinni, nýjustu kvikmynd Braga Þórs Hinrikssonar. Sagan er þunn, endurtekningasöm og stendur ekki undir lengd myndarinnar. Leikarar fá úr litlu að moða og það sem á að vera hræðilegt verður hálf kjánalegt,“ sagði í tveggja stjörnu dómi um myndina.


Desember - Jólin, jólin alls staðar

Felix drekkir gamaninu í leiðindum

Gamandramað Felix og Klara var frumsýnt á Rúv í nóvember og sagði frá samnefndum hjónum. Ragnar Bragason leikstýrði þáttunum og skrifaði handrit þeirra með Jóni Gnarr sem leikur annað aðalhlutverkið á móti Eddu Björgvins.

„Felix og Klara hefðu allt eins getað heitið Felix því tollvörðurinn fyrrverandi gleypir alla söguna. Persónusköpun Klöru situr á hakanum, hún birtist áhorfendum sem tvívíður karakter og samskipti hjónanna eru yfirborðskennd,“ sagði í þriggja stjörnu dómi um þættina á Vísi.

„Felix er einn leiðinlegast karakter sem maður man eftir, hann er vissulega hlægilegur og lendir í ýmsum fyndnum uppákomum. Gott hefði verið að veita leiðindunum smá mótvægi, annað hvort með votti af jákvæðni eða með því að styrkja persónugallerýið og dýnamík persónanna. Þegar dramað tekur yfir grínið finnst manni höfundarnir ekki hafa unnið nægilega fyrir persónubreytingum söguhetjunnar.“


Una bjargaði jólunum

Jónas Sen fór á Unu Torfa í jólafötunum, tónleikar í Salnum í Kópavogi, fimmtudaginn 11. desember. Þar sýndi söngkonan hvernig megi selja jólaskap, sáluhjálp og einlægni í einum pakka.

„Þegar tónleikunum lauk og ég rölti út í Kópavogsmyrkrið, sá ég breytingu á fólki. Axlir voru neðar. Bros voru einlægari. Sálin hafði fengið sitt „fix“. Við vorum búin að hlaða batteríin. Við getum tekist á við að pakka inn gjöfum, sjóða hangikjöt eða grilla hamborgarhrygg, og meira að segja rífast við afa gamla um pólitík á aðfangadag,“ sagði í fjögurra og hálfrar stjörnu dómi um tónleikana.

„Una Torfa bjargaði því í rauninni jólunum fyrir okkur fólkinu í Salnum. Ef þú varst ekki þarna, þá misstirðu af hópmeðferð sem kostaði brot af því sem sálfræðitími kostar. Takk fyrir mig, Una. Ég held ég sé tilbúinn í jólin núna. Eða allavega að mæta næstu viku.“


Frostmark hjá Frosta

Kjartan Kjartansson sem sinnir vanalega hefðbundinni blaðamennsku á Vísi (og stöku leikjadómum) sneri kvæði sínu í kross og skrifaði bókadóm á Vísi (þann fyrsta sem birtist á vefnum í langan tíma) um bókina Hitamál eftir Frosta Sigurjónsson.

„Eftir að hafa fundið lausn á Covid-19 og peningamálum á Íslandi er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins búinn að komast að því að loftslagsvísindamenn heimsins hafi allir rangt fyrir sér um loftslagsbreytingar,“ sagði í núll stjörnu dóminum.

Hitamál á örugglega eftir að verða haldið á lofti af úrtölumönnum loftslagsaðgerða á Íslandi um ókomin ár. Ástæðan er ekki sú að bókin færi fram sannfærandi rök gegn vísindalegri þekkingu á orsökum og afleiðingum loftslagsbreytinga, þvert á móti, heldur einfaldlega sú að hún styður málstað þeirra.“


Enn einu sinni tókst Cameron það

Bíógagnrýnandi fór á jólamynd ársins, Avatar: Fire and Ash, í leikstjórn James Cameron. Þar er áhorfendum í þriðja sinn boðið til Pandóru að fylgjast með Na'vi-fólkinu berjast gegn ofsóknum mannanna. 

„Avatar: Fire and Ash er frábær bíóupplifun með fallegum náttúrusenum, mögnuðu sjónarspili og gamla góða Cameron-hasarnum. Sömu vandamál og plöguðu fyrri myndirnar eru enn til staðar þó vissulega sé kafað dýpra ofan í ákveðnar persónur,“ sagði í þriggja og hálfrar stjörnu dóminum.

„Heitttrúaðir aðdáendur James Cameron og Avatar-myndanna verða ekki sviknir. Þeir sem elska sjónarspil og góðan hasar verða það sennilega ekki heldur. En hinir vantrúuðu, þeir sem þoldu ekki síðustu tvær myndir eða fannst þær leiðinlegar, verða sennilega ekki sannfærðir úr þessu.“


Dauðadrukkið fólk í jólapeysum í helvíti á jörðu

Jónas Sen fór á jólatónleika Emmsjé Gauta í Breiðholtinu og úr varð mest lesna gagnrýni ársins. Segja má að tónleikarnir hafi ekki verið hans tebolli.

„Það er til ákveðin tegund af helvíti á jörðu. Hún er ekki logandi eldur og brennisteinn, heldur lýsir hún sér sem troðfullur salur af dauðadrukknu fólki í jólapeysum úr gerviefnum, angandi af blöndu af rándýru ilmvatni og bjór,“ sagði í inngangi einnar stjörnu dómsins.

„Velkomin á Jülevenner Emmsjé Gauta, viðburð sem sannaði endanlega að kapitalisminn getur selt okkur hvað sem er, svo lengi sem það er pakkað inn í nógu mikið glimmer og kaldhæðni. Tónleikarnir voru ein risavaxin auglýsing fyrir hitt og þetta, en aðallega áfengi. Ef markmiðið var því að sjúga hverja einustu örðu af sál, heilagleika og menningu úr jólahátíðinni, þá tókst Gauta það ekki bara; hann fullkomnaði verkið.“


Miskunnarlaus, ágeng og listræn sýning

Eftir neikvæðan einnar stjörnu jóladóm Jónasar endaði Símon árið á jákvæðum nótum með því að fara á jólasýningu Þjóðleikhússins, Óresteiu eftir Benedict Andrews, og gefa henni fimm stjörnur.

„Óresteia er miskunnarlaus sýning. Hún er listræn og ágeng, myrk og blóðug og löng. Það eru eflaust einhverjir sem munu láta sýningartímann (ca 4 tímar með tveimur hléum) fara í taugarnar á sér. Að búa til svona sýningu krefst hugrekkis og því á Þjóðleikhúsið hrós skilið fyrir að leggja upp í þessa vegferð og fara gegn „hefðunum“ í þessari jólasýningu. Ef það er eitthvað leikhús sem á að bjóða upp á sýningar eins og Óresteiu þá er það Þjóðleikhúsið,“ sagði í dóminum.

„Í Óresteiu fáum við tækifæri til að sjá marga okkar bestu leikara ögra sjálfum sér, taka skref inn í óvissuna undir handleiðslu framúrskarandi listamanns sem sýnir að hann er ekki bara afburðar leikstjóri heldur einnig spennandi leikskáld. Fyrir þá sem vilja smá pásu frá söngleikjum og försum (sem eru ansi fyrirferðarmiklir í íslensku leikhúsi) þá er það vel þess virði að kíkja í Kassann.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.