Nú förum við að vona að stormviðvörunum sé lokið í bili og sumarið fari að láta á sér kræla. Það er þó enn kalt úti og þá er tilvalið að gæða sér á ljúffengri fiskisúpu að hætti Evu Laufeyjar og brakandi fersku heimabökuðu brauði með basilíkupestói.
Matarmikil sjávarréttasúpa með taílensku yfirbragði
2 rauð chili-aldin, fræhreinsuð og skorin í bita
4 hvítlauksrif
6 cm fersk engiferrót
40 g ferskt kóríander
½ tsk. kóríanderfræ
3 msk. olía
700 g kókosmjólk
5 dl vatn
1½ fiskiteningur
½–1 tsk. fiskisósa
500 g fiskur t.d. langa
20–25 risarækjur, ósoðnar
200 g heilhveitinúðlur, soðnar skv. leiðbeiningum á pakka
3 vorlaukar, fínt sneiddir
1 grænt chili-aldin, fræhreinsað
Ferskt kóríander til skrauts
Maukið chili, hvítlauk, engiferrót, kóríanderfræ og 1 msk. af olíu saman í matvinnsluvél. Hitið olíu í potti og steikið kryddmauk í 1–2 mínútur.
Bætið kókosmjólk, vatni og fiskikrafti út í, látið sjóða við vægan hita í 10 mínútur. Bætið fiskisósu út í og síðan fiskinum og rækjunum og látið sjóða í 2–3 mínútur.
Setjið núðlur í botninn á skálum, ausið súpunni yfir og setjið vorlauk og grænt chili ofan á. Skreytið með fersku kóríander.