Skoðun

Tökum stolt úr jöfnunni

Bergur Ebbi skrifar
Það getur verið erfitt að ráða við sært stolt. Það er til dæmis landlægt vandamál hvað eigi að gera við fyrrverandi stjórnmálamenn. Þeir sem deildu og drottnuðu geta ekki bara hangið í heitum pottum allan daginn. Það þarf að koma þeim fyrir, setja þá í sendiherrastöður eða að minnsta kosti einhverja puntstjórnunarstöðu.

Það á ekki að vera launungarmál að sært stolt hindrar baráttu fyrir kvenréttindum. Viðurkennum bara staðreyndirnar. Karlmenn réðu öllu – í stjórnmálum, viðskiptum, hernaði, listum – og þeim tíma er sem betur fer að ljúka og það er engin ástæða fyrir því að jafnrétti skuli ekki náð hratt og örugglega. Það eina sem stendur í vegi er þetta fjárans stolt sem allir þurfa að labba á eggjaskurn í kringum. Þurfum við 300 ára buffer-tímabil þar sem karlkynið (eða sá helmingur sem víkur fyrir konunum) er uppdubbað í sendiherrastöður til að halda stoltinu?

Stolt er ein af dauðasyndunum sjö í kristinni trú – og það er engin tilviljun eða mannvonska sem liggur að baki þeirra þúsunda ára gömlu speki. Raunar er stoltið yfirleitt talið rót allra annarra synda og ónota – undirstaða græðgi, drambs og öfundar og að lokum ástæða styrjalda, óöryggis og sundurlyndis. Um þetta hafa verið skrifuð nokkur bókasöfn af djúpum teólógískum texta og óþarfi að ræða það neitt frekar á hversdagslegan hátt.

Ég segi. Tökum stolt alveg úr jöfnunni. Hættum að taka tillit til særðs stolts karla. Það þýðir líka að kvenréttindabarátta á ekki heldur að snúast um að karlmenn eigi að vera stoltir af konum. Síðast þegar ég skrifaði um jafnréttismál eyddi ég miklu púðri í að tala um hvað ég væri stoltur af konum. En nú sé ég að mitt stolt er bara til trafala. Það þarf enginn að halda stolti eða færa stoltið yfir á eitthvað annað. Stolt er bara fyrir í þessu samhengi. Ef við höldum þessu stolt-rugli áfram þá verður jafnrétti náð eftir 300 ár. Við höfum margt þarfara við tímann að gera.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×