Hann tekur það fram að hann hafi ekki heyrt í mjög mörgum, heldur einungis fylgst með viðbrögðum á samfélagsmiðlum. Á lokuðum hópi hjúkrunarfræðinga á Facebook hafa fjölmargir hjúkrunarfræðingar lýst vonbrigðum sínum með niðurstöðuna.

„Það er ekkert tromp uppi í erminni. Við fáum þarna yfirlýsingu frá ráðherrum um að farið verði yfir það hvernig megi bæta kjör hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu. En það er bara yfirlýsing,“ segir Ólafur.
Ólafur segir það sinn skilning að með undirritun samningsins í gær sé búið að koma í veg fyrir að gerðardómur ákveði laun hjúkrunarfræðinga. Forsendur fyrir skipan gerðardómsins hafi verið þær að ekki væri búið að undirrita samning fyrir 1. júlí. „Þessar forsendur eru þá ekki lengur til staðar og ég lít svo á að verði þetta fellt, þá getum við sest niður aftur að samningaborðinu og reynt að semja á ný,“ segir Ólafur.
Enn hafa engir samningar verið undirritaðir á milli BHM og ríkisins. Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, minnir á að bandalagið hafi stefnt íslenska ríkinu vegna laga sem sett voru á verkfallið. Hún telur ólíklegt að samningar náist fyrir 1. júlí og segir samninga hjúkrunarfræðinga og ríkisins engu breyta þar um. „Þetta breytir engu fyrir okkur. Við semjum á okkar forsendum og munum halda því áfram,“ segir Þórunn.