Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði grísku ríkisstjórnina hafa svikið sig þegar hann tjáði sig á blaðamannafundi í gær um einhliða ákvörðun Grikkja um að slíta viðræðum við Evrópusambandið um skuldavanda ríkisins. Juncker sagði ákvörðunina þungt högg fyrir Evrópu.
Ákvörðun Grikkja gekk út á að slíta viðræðunum við Evrópusambandið og halda þjóðaratkvæðagreiðslu um skilmála lánardrottna Grikkja þann 5. júlí næstkomandi.
Juncker hvatti grísku þjóðina til þess að kjósa með skilmálum Evrópusambandsins i þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þá sagði Juncker brotthvarf Grikklands úr evrusamstarfinu ekki mögulegt og sagði nýjustu skilmála lánardrottnanna sanngjarna.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, tók undir ummæli forseta framkvæmdastjórnarinnar í gær og sagði Grikki hafa fengið rausnarlegt tilboð. Hún sagðist þó ekki vera á móti frekari samningaviðræðum við Grikki, sama hvernig þjóðaratkvæðagreiðslan á sunnudaginn færi.
Ef Grikkir hafna skilmálunum þykir líklegt að dagar Grikklands í Evrópusambandinu séu taldir.
Erlent