Erlent

Hillary Clinton sakar Kínverja um þjófnað

Hillary Clinton heilsar kjósendum á þjóðhátíðardegi Bandaríkjamanna, 4. júlí.
Hillary Clinton heilsar kjósendum á þjóðhátíðardegi Bandaríkjamanna, 4. júlí. vísir/ap
bandaríkin Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sakar Kínverja um að stela viðskiptaleyndarmálum og upplýsingum frá opinberum aðilum. BBC greinir frá.

Clinton, sem sækist nú eftir tilnefningu sem forsetaframbjóðandi demókrata, sagði Kínverja „reyna að brjótast inn í allt sem ekki hreyfist í Bandaríkjunum“, á framboðsfundi í New Hampshire.

Clinton bætti við að Kínverjar hefðu stolið miklu magni upplýsinga frá verktökum sem starfa fyrir Bandaríkjaher. Bandaríkjamenn þyrftu því að vera á varðbergi.

Bandarísk stjórnvöld gruna Kínverja um að hafa brotist inn í tölvukerfi Office of Personal Management (OPM), sem sér um starfsmannamál hjá bandaríska ríkinu. Í árásinni hafi upplýsingum um allt að fjórar milljónir opinberra starfsmanna verið stolið. Kínverjar neita allri aðild að málinu.

Frambjóðendur í prófkjöri repúblikana fyrir forsetakosningarnar hafa sagt árásina á tölukerfið OPM vera merki um vanhæfni stjórnar Obama Bandaríkjaforseta.

Marco Rubio og Rick Perry hafa talað fyrir því að Bandaríkin beiti stofnanir tengdar árásinni á OPM viðskiptaþvingunum. Mike Huckabee telur hins vegar að Bandaríkin eigi að svara í sömu mynt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×