Sport

Thatch: Ætla að rota Gunnar í annarri lotu

Henry Birgir Gunnarsson í Las Vegas skrifar
„Ég er búinn að æfa mjög vel og nú er kominn tími á að leika sér,“ sagði Brandon Thatch öruggur með sig er blaðamaður hitti á hann á MGM Grand í gær. Thatch heldur upp á afmælið sitt í búrinu á morgun en þá verður hann þrítugur.

Þetta er stór strákur, 188 sentimetrar, og afar kraftmikill. Hann hljóp í skarðið þegar John Hathaway meiddist. Sérfræðingar eru sammála um að Thatch sé mun öflugri andstæðingur og honum er spáð miklum frama. Hann hefur unnið ellefu af þrettán bardögum sínum og sjö þeirra með rothöggi. Kraftmikill strákur sem þarf að varast.

„Gunnar er frábær andstæðingur og sigur á honum gerir frábæra hluti fyrir minn feril. Þá ætti ég að komast inn á topp fimmtán í heiminum. Ég mæti alltaf með sjálfstraustið í toppi en ég geri mér vel grein fyrir hættunni sem stafar af Gunnari. Ég mun vera skynsamur en samt berjast eins og ég vil,“ sagði Thatch ákveðinn en hann ætlar að klára Gunnar í annarri lotu. Helst með rothöggi.

Thatch veit sem er að hann verður í vandræðum ef hann lendir í gólfinu með Gunnari og hann ætlar að forðast það eins og heitan eldinn.

„Gunnar er mjög góður í gólfinu og ég þarf að halda minni fjarlægð. Ég þarf að halda honum í stungufjarlægð. Ef við endum í gólfinu þá er ég tilbúinn að standa aftur á fætur. Ég hef verið að vinna mikið í því og glíman hjá mér verður betri með hverjum bardaga,“ segir Thatch en honum finnst það enn óraunverulegt að hann sé á meðal bestu bardagakappa heims.

„Það er draumur að rætast að vera á þessu kvöldi og að vera í UFC. Það er ótrúlegt að vera á þessu stærsta bardagakvöldi heims og ég get ekki beðið,“ sagði Brandon Thatch.

Vísir er í Las Vegas og fylgir Gunnari Nelson eftir alla vikuna. Ekki missa af neinu. Like-aðu okkur á Facebook, eltu okkur á Twitter og skyggnstu bakvið tjöldin á Snapchat (sport365). Tryggðu þér svo áskrift á 365.is.

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×