Sjálfsmorðsárásarmaður felldi að minnsta kosti 28 manns í árás á tyrkneska bæinn Suruc sem stendur nærri landamærum Tyrklands og Sýrlands. Engin samtök lýstu yfir ábyrgð á árásinni en öryggisfulltrúi bæjarstjórnar Suruc sagðist hræddur um að Íslamska ríkið stæði að baki henni.
Undir það tók héraðsstjórinn í Suruc, Abdulla Ciftci. „Í ljósi þess að þetta var sjálfsmorðsárás þá teljum við miklar líkur á því að Íslamska ríkið sé ábyrgt.“
Suruc er um tólf kílómetra frá sýrlenska bænum Kobane sem sýrlenskir Kúrdar hafa varið fyrir árásum Íslamska ríkisins undanfarna mánuði.
Fjölmiðlar í Tryklandi greindu frá því í gær að ráðist hefði verið á menningarmiðstöð sem hýsti umræðufund sem kúrdísk stjórnmálasamtök, sem starfa að endurbyggingu Kobane, stóðu fyrir.
Árásin var gerð í kjölfar þess að tyrknesk lögregla hafði handtekið 500 herskáa íslamista undanfarið. Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, fordæmdi árásina þegar hann frétti af henni og kallaði hana hryðjuverk.
