Þetta segir Ingólfur Þórarinsson, sem áður var þekktur sem Ingó Veðurguð, á Facebook-síðu sinni í kvöld. Tilefnið er úthlutun listamannalauna sem Vísir greindi frá fyrr í dag.
Sjá einnig: Þau fengu listamannalaun árið 2016
Í færslu sinni segist Ingólfur alfarið vera á móti því að ríkið greiði listamannalaun.

„Ég byrjaði nefnilega 18 ára að spila víða fyrir lág laun og gat ekki lifað sem listamaður. Ég vann á meðan í banka, kjörbúð og stundaði nám. Það tók mig langan tíma að búa til markað fyrir mína vöru. Þess vegna er kannski enn súrara að skattpeningar úr mínu fyrirtæki sem varð til eftir erfiðisvinnu fari i að aðrir geti skapað án þess að hafa áhyggjur af fjárhagnum,” skrifar Ingólfur.
Hann segist vera mótfallinn hverskyns meðgjöf með listamönnum. „ Fyrir mér er sama hvað þú getur sem listamaður. Það eru þín eigin forréttindi að hafa fæðst eða ræktað með þér hæfileika á þessu sviði sem þú verður að nýta sjálfur,” segir Ingólfur sem lýkur pistlinum, sem sjá má hér að neðan, með orðunum:
„Ég syng og spila a gítar en eg kann ekki að skipta um olíusíu eða henda upp steypumótum en eg ber mikla virðingu fyrir þeim sem kunna það og vil því ekki skattpeningana þeirra.“