Mennirnir eru myrtir á mismunandi hátt í myndbandinu og virðist einn þeirra vera á táningsaldri. Þeir eru allir látnir lesa upp yfirlýsingu þar sem þeir lýsa yfir sekt sinni.
Undanfarna daga hefur herinn í Egyptalandi barist hart gegn vígamönnum samtakanna Wilayat Sinai, sem hafa lýst sig hliðholl ISIS, á Sinaiskaga þar sem þeir hafa haldið til um nokkurt skeið. Fjölmiðlar þar í landi sögðu frá því í gær að allt að 60 vígamenn hafi fallið í loftárásum í gær.
Wilayat Sinai lýstu því yfir í nóvember að þeir hefðu komið fyrir sprengju um borð í rússnesku flugvélinni sem fórst yfir Sinaiskaga. 224 létu lífið.
Í lok myndbandsins eru birtar myndir af um tuttugu mönnum, nöfn þeirra og frekari upplýsingar. Við hverja mynd stendur að samtökin óski þess að þeir láti lífið.