Menning

Næstu Game of Thrones bókinni seinkar: Sjónvarpsþættirnir munu stinga bækurnar af í apríl

Bjarki Ármannsson skrifar
George R. R. Martin, höfundur bókanna sem Game of Thrones byggir á.
George R. R. Martin, höfundur bókanna sem Game of Thrones byggir á. Vísir/Getty
Aðdáendur skáldsagna bandaríska rithöfundarins George R. R. Martin, sem sjónvarpsþáttaröðin Game of Thrones byggir á, þurfa að bíða enn lengur eftir nýjustu sögu hans en áður var talið. Martin greindi frá því í dag að hin væntanlega Winds of Winter verði ekki komin út í mars líkt og til stóð, en þetta breytir öllu um upplifun aðdáenda af þáttunum.

Sjónvarpsþáttaröðin Game of Thrones er sennilega sú vinsælasta í heiminum í dag. Hún hefur sópað að sér verðlaunum og slegið hvert metið á fætur öðru yfir mest niðurhal á netinu. Þættirnir fjalla um átök í hinu ímyndaða konungsríki Westeros og eru byggðir á skáldsagnabálki Martin, sem hóf göngu sína fyrir tuttugu árum.

Martin greinir frá því á bloggsíðu sinni í dag að sjötta bókin í röðinni, sem mun bera heitið Winds of Winter, verður ekki tilbúin í mars og að í raun sé ekkert hægt að segja til um hvenær hún komi út.

Sjónvarpsþættirnir hófu göngu sína árið 2011, sama ár og fimmta bókin í bálknum kom út. Lesendur bókanna hafa alla tíð vitað fyrirfram nokkurn veginn hvað muni gerast í þáttunum en nú er söguþráður þáttanna kominn jafnlangt og í bókunum. Sjötta þáttaröðin hefst nú í apríl og þýðir frestun sjöttu bókarinnar það að dyggir lesendur standa nú í fyrsta sinn jafnfætis þeim sem ekki hafa lesið bækurnar. Í stuttu máli: Enginn veit hvað gerist í næstu þáttaröð.

„Enginn er jafn vonsvikinn og ég,“ skrifar Martin á bloggsíðuna. „Í marga mánuði hef ég ekki þráð neitt heitar en að geta sagt að ég hafi klárað og skilað af mér Winds of Winter á réttum tíma.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×