Ekkja eins af æðstu leiðtogum Íslamska ríkisins hefur verið ákærð fyrir dauða bandarísku konunnar Kayla Mueller, sem lést í haldi ISIS í fyrra. Umm Sayyaf var gift Abu Sayyaf, yfirmanni olíusölu hryðjuverkasamtakanna, og var Mueller fangi á heimili þeirra. Þar nauðgaði Abu Bakr al-Baghdadi, æðsti leiðtogi ISIS, henni ítrekað.
Yfirvöld í Bandaríkjunum segjast styðja ákæru gegn Umm Sayyaf.
Bandarískir sérsveitarmenn gerðu árás á heimili þeirra í maí í fyrra. Abu Sayyaf var felldur og Umm, sem er 25 ára og frá Írak, handsömuð. Hún er nú í haldi yfirvalda í Írak, sem hafa ákært hana. Fjöldi ungra kvenna voru í gíslingu á heimilinu
Sjá einnig: Al-Baghdadi „átti“ Kayla Mueller
Mueller var handsömuð ásamt kærasta sínum þar sem þau voru við hjálparstörf í Aleppo í Sýrlandi í ágúst 2013. Omar Alkhani, kærasti hennar, var látinn laus tveimur mánuðum seinna og hafði hann þá verið laminn illa.
Sjálf var Mueller í haldi með tveimur táningsstúlkum sem tókst að sleppa til yfirráðasvæðis Kúrda í Írak. Þær sögðu bandarískum sérsveitarmönnum sögu Mueller. Fyrir um ári síðan sagði ISIS að Mueller hafi látið lífið í loftárás Jórdana í Sýrlandi, en það hefur aldrei verið staðfest.
Vitni sögðu hana hafa verið myrta af vígamönnum.
