Innlent

Lausna leitað í álversdeilunni hjá sáttasemjara í dag

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Deilan í álverinu hefur staðið mánuðum saman.
Deilan í álverinu hefur staðið mánuðum saman. Vísir/GVA
Samninganefndir Rio Tinto Alcan og starfsmanna álversins í Straumsvík koma saman til fundar í húsakynnum ríkissáttasemjara klukkan þrjú í dag. Deiluaðilar virðast stál í stál og fátt bendir til að lausn finnist í bráð, að sögn Gylfa Ingvarssonar, talsmanns starfsmanna í álverinu.

„Við hittumst fyrir helgi en ástandið er bara óbreytt. Við reyndum að finna út hvernig við gætum haldið áfram eftir því sem frá var horfið og virtist Rio Tinto hafa fengið einhverja heimild að utan til að halda áfram að tala við okkur. En að öðru leyti vitum við ekkert,“ segir Gylfi.

Næsta skip til Straumsvíkur er væntanlegt í dag og á lestun þess að hefjast á morgun. Gylfi segir að þá muni reyna enn frekar á verkfallið, en að verkfallsverðir muni sjá til þess að öllum reglum verði fylgt.

„Skipið er núna á ytri höfninni þannig að við reiknum með því að það verði komið upp úr klukkan tvö. Þá verður náttúrulega tekið og landað úr skipinu og það tekur svona um og yfir sólarhring,“ segir hann. „Það skýrist svo upp úr hádegi þegar búið er að losa skipið hvað það er sem má fara um borð og hvað ekki.“

Aðspurður segir hann hugsanlegt að yfirmenn muni reyna að ganga í störf verkamanna. „Það er alveg hugsanlegt. Þeir boðuðu líka að þeir ætluðu hugsanlega að kæra framkvæmdina en það hefur ekkert komið fram enn þá, en vonandi átta þeir sig á því að það þarf að setjast niður og leysa deiluna. Hún leysist ekkert í kærum sitt á hvað,“ segir Gylfi.


Tengdar fréttir

Langvarandi deilu er hvergi nærri lokið

Engu hefur enn miðað í kjaraviðræðum starfsmanna Rio Tinto Alcan í Straumsvík. Deilunni var vísað til ríkissáttasemjara í apríl í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×