Menning

Komumst að því að við þekkjum öll nokkra Don Giovanni

Magnús Guðmundsson skrifar
Kolbrún Halldórsdóttir leikstjóri á sviði Eldborgarsals Hörpu.
Kolbrún Halldórsdóttir leikstjóri á sviði Eldborgarsals Hörpu. Visir/Stefán
Óperan Don Giovanni eftir Wolfgang Amadeus Mozart var frumsýnd Prag árið 1787 og hefur allar götur síðan verið ein vinsælasta ópera heims. Íslenska óperan frumsýnir Don Giovanni í Hörpu í kvöld með einvalaliði söngvara, tónlistarstjórn er í höndum Benjamins Levy en Kolbrún Halldórsdóttir heldur um leikstjórnartaumana. „Garðar Cortez sagði nú hérna um árið að þetta væri ein af fjórum óperum óperubókmenntanna sem næðu því að vera hin fullkomna ópera,“ segir Kolbrún og er meðvituð um pressuna sem fylgir því að takast á við slíkt meistaraverk. „Þetta tæplega tvö hundruð og þrjátíu ára gamla verk hefur verið sett upp óteljandi sinnum og það er sannkölluð áskorun að fá að takast á við þessa klassísku sögu með þetta mikla drama.“

Gömul saga og ný

Sagan af Don Giovanni fjallar um samnefndan glæsilegan flagara sem heillar og tælir konur vítt og breitt um Evrópu með sinn dygga þjón Lepor­ello sér við hlið. En Don Giovanni fremur voðaverk og þar með leysast ill öfl úr læðingi og glíman við samviskuna hefst fyrir alvöru. Þessi saga hefur birst í ýmsum formum í bókmenntum og listum en Kolbrún segir að öll sviðsverk verði alltaf að leitast við að tala við samtímann með einhverjum hætti. „Þannig að við höfum óneitanlega sett 2016 gleraugun á nefið og velt aðeins fyrir okkur hver Don Giovanni dagsins í dag gæti verið. Við höfum eiginlega fundið það út að við þekkjum öll nokkra. En svo þekkjum við líka öll ýmsar donnur Önnur og Elvirur og Zerlinur sem falla fyrir sjarmerandi karlmönnum þó þeir séu drullusokkar. Svo ætla þær að elska þá svo mikið að þeir breytist?…“ Segir Kolbrún og brosir út í annað. „Ó, já, þetta er gömul saga og ný og við nálgumst hana soldið þannig.

Eldborg er magnaður salur

Við förum þá leið í uppfærslunni að setja óperuna upp í ákveðnu tímaleysi. Við sækjum okkur innblástur í búningum og leikmynd í anda 19. aldarinnar. Þannig fá óperuunnendur dramatískt útlit, stóra kjóla og flottar greiðslur en strákarnir eru ekki í sokkabuxum. Vonandi mun enginn sakna þeirra.“

Eldborgarsalur Hörpu er fyrst og fremst tónleikasalur og Kolbrún segir það vissulega áskorun sem kallar á sértækar lausnir fyrir óperusýningu. „Það liggur ekki beint við að setja þar upp óperu sem gerir kröfu um átta ólíkar sviðsmyndir. En þá þarf að sýna útsjónarsemi og Snorri Freyr Hilmarsson leikmyndahönnuður og Björn Bergsteinn Guðmundsson ljósahönnuður eru algjörir galdramenn í þeim efnum og ásamt Maríu Ólafsdóttur búningahönnuði sýnist mér við ná að galdra fram trúverðuga niðurstöðu. Smiðshöggið reka raunar vídeó-listamennirnir Arnar Steinn Friðbjarnarson og Helena Stefánsdóttir og með samhentu átaki fólks sem lætur gamminn geisa og ímyndunaraflið ráða för þá held ég að okkur hafi, þrátt fyrir allt, tekist að ná þessu á nokkuð góðan stað.

En hvað þennan sal varðar þá er hann hreint meistaraverk, slíkur er hljómburðurinn. Og Benjamin Levy sem stýrir hljómsveitinni hefur útsett tónlistina þannig að hún þjónar verkinu fullkomlega, stundum er þetta svo ótrúlega viðkvæmnislegt að gæsahúðin hleypur upp og niður hryggsúluna og í annan tíma svo kraftmikið að hnefarnir kreppast. Svo anda hljómsveitin og söngvararnir svo fallega saman að það er hreint út sagt engu líkt. Þeir átta söngvarar, sem syngja þessi veigamiklu en ólíku hlutverk, og kórinn, sem fer líka alveg á kostum, eiga í mér hvert bein, það er unun að vinna með þessu kraftmikla fólki.“

Þóra Einarsdóttir í hlutverk Zerlinu ásamt konum úr kór Íslensku óperunnar.
Heillandi söngvarar

Bakgrunnur Kolbrúnar er fyrst og fremst í leikhúsinu og hún segir að vissulega sé ákveðinn grundvallarmunur á því að vinna að hefðbundinni leiksýningu og óperu. „Í óperunni er ekki eitt einasta talað orð, þannig lagað, svo það þarf að koma öllum söguþræðinum til skila í gegn um sönginn og látbragðið. Söngvarinn sem tónlistarmaður er með sitt hljóðfæri innbyggt í líkamann, en um leið þarf hann að hafa aðferðir leikarans á valdi sínu, og það þarf gríðarlega tækni til að leika og flytja tónlistina um leið svo vel fari. Þau þurfa að takast á við stóra sextetta, kvintetta, kvartetta, dúetta og aríur. Þetta er rosalega fjölbreytileg tónlist sem þau þurfa að hafa á valdi sínu og þá gerir gæfumuninn þessi algjöra hlustun, sem þarf að vera til staðar til að geta fylgst með slaginu hjá hljómsveitarstjóranum og náð sambandi við hljómsveitina, alltaf verið spot-on eins og maður segir, án þess að gleyma hlutverkinu og aðstæðunum sem glímt er við. Þetta er svakaleg þjálfun og reynir rosalega á. Í mínum huga eru óperusöngvarar ákaflega spennandi listamenn.

Mínar áherslur hafa verið á dramað í verkinu og þátt leiklistarinnar, Benja­min Levy stýrir tónlistinni en það hefur komið í minn hlut að teygja söngvarana og toga dramatískt. Ég held að þau hafi haft gaman af því og að þau hafi þroskast sem leikarar í gegnum ferlið. Ég er að minnsta kosti alveg heilluð af þeim.“

Hallveig Rúnarsdóttir sem Donna Anna, Elmar Gilbertsson sem Don Ottavio, Hanna Dóra Sturludóttir sem Donna Elvira.
Komið og njótið

Kolbrún segir að það sé einstaklega heillandi að vinna að verkum þar sem leiðir tónlistar og leiklistar liggja saman. „Mér finnst rosalega gaman að tengja þetta saman og ég geri ráð fyrir að halda áfram að vinna á þessu sviði. Þarna, á mörkum tónlistar og leiklistar, líður mér vel og ég nýt þess að fá tækifæri til að miðla svona verki áfram til áhorfenda, sem er auðvitað ekki fullskapað fyrr en stefnumót flytjenda og áhorfenda á sér stað, það stefnumót er auðvitað þungamiðjan í þessu öllu saman.

Það þarf ekki að kunna ítölsku til að geta notið sýningarinnar til fulls. Við höfum verið svo lánsöm að fá til liðs við okkur Veturliða Guðnason, sem hefur þýtt óperuna með áhorfendur tuttugustu og fyrstu aldarinnar í huga. Hann hefur ekki gert mikið af því að þýða óperur en hefur reynslu af því að þýða söngleiki. Hann hefur legið yfir Mozart með okkur og þar sem svona óperuþýðing er fyrir skjátexta þá kemur sér afskaplega vel hvað Veturliði er reyndur sjónvarpsþýðandi. Hann er svo glúrinn við að koma þessu á kunnuglegt mál þannig að áhorfendur þurfa ekki að hafa mikið fyrir því að grípa textann. Þess vegna ætti fólk að geta notið þess, bæði að hlusta á ítölskuna vel sungna og gjóa svo augunum öðru hvoru á skjáinn til að ná framvindu sögunnar. Svo það er bara um að gera að koma og njóta einnar af þessum fullkomnu óperum óperubókmenntanna og það með frábærum flytjendum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×