Fréttirnar komu mörgum í opna skjöldu en Sharapova er ein þekktasta íþróttakona heims. Hún hefur unnið fimm risamót og er tekjuhæsta íþróttakona síðustu ára.
Sjá einnig: Sharapova féll á lyfjaprófi
Lyfið sem felldi hana var sett á bannlista um áramótin. Hún segist hafa tekið þetta lyf löglega í tíu ár. „Ég féll á lyfjaprófi og axla fulla ábyrgð á því,“ sagði Sharapova á blaðamannafundi sínum eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi.
„Síðustu tíu ár hef ég fengið lyfið mildronate frá fjölskyldulækninum. Er mér var tilkynnt að ég hefði fallið á lyfjaprófi þá komst ég að því að þetta lyf er einnig kallað meldonium. Ég vissi það ekki.“
Sjá einnig: Sharapova: Ég axla fulla ábyrgð
„Það er mikilvægt að allir skilji að þetta lyf hefur ekki verið á bannlista og ég hef verið að taka það löglega. Ég vissi ekki af því að það hefði verið sett á bannlista. Ég fékk tölvupóst um breytingar í lyfjalögunum þann 22. desember en ég opnaði ekki hlekkinn sem fylgdi. Það voru stór mistök hjá mér. Ég hef brugðist aðdáendum mínum og íþróttinni sem ég elska svo mikið.