Menning

Verkalýðsbarátta vinnandi fólks

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Sumarliði Ísleifsson í essinu sínu í myndasal Þjóðminjasafnsins.
Sumarliði Ísleifsson í essinu sínu í myndasal Þjóðminjasafnsins. Fréttablaðið/Ernir
Flestar myndirnar eru frá því á öðrum áratug síðustu aldar og fram um 1970. Við sýnum fólk í öllum mögulegum greinum atvinnulífsins og þær aðstæður sem það vann við, og erum líka með nokkrar myndir sem tengjast kjaradeilum,“ segir Sumarliði Ísleifsson sagnfræðingur um sýninguna Vinnandi fólk - Alþýðusamband Íslands 100 ára sem opnuð er í dag, laugardag, í myndasal Þjóðminjasafnsins.





Endurvinnsla á pappír eftir miðja 20. öld. Mynd: Guðni Þórðarson, Ljósmyndasafn Íslands
Hún fjallar um þátt verkalýðshreyfingarinnar í því að móta samfélagið, með baráttu sinni fyrir bættum kjörum fólks.  Sumarliði er vel kunnugur efninu eftir að hafa skrifað sögu ASÍ sem kom út 2013 í tveimur bindum upp á 800 síður.

Auk um 70 ljósmynda einnig eru ýmiss konar skjöl á sýningunni, tilkynningar og auglýsingar sem tengjast sögu hreyfingarinnar.





Stúlkur við síldartunnur: Neskaupsstaður 1965. Mynd: Ari Kárason. Ljósmyndasafn Íslands
Í sýningarborðum er fjallað um það þegar atvinnurekendur í Keflavík reyndu að koma í veg fyrir stofnun verkalýðsfélags árið 1931. Einnig um viðamikið verkfall árið 1955 sem stóð í sex vikur. „Það eru líklega hörðustu verkfallsaðgerðir sem dæmi eru um hér á landi, til dæmis voru settir upp vegatálmar á leiðum til Reykjavíkur til að loka á aðflutninga til borgarinnar. Ástand sem er fjarri fólki núna,“ segir Sumarliði.

 

Skipasmíði á Akureyri á sjötta áratug 20. aldar. Mynd: Eðvarð Sigurgeirsson, Minjasafnið á Akureyri
Hann nefnir þriðja þemað í borðunum, verkakvennahreyfinguna. „Hér á landi voru hlutfallslega mun fleiri verkakvennafélög en í löndunum kring um okkur,“ upplýsir Sumarliði.

„Konur fengu nefnilega ekki aðgang að sumum karlafélögunum og Kvenréttindafélagið átti einnig frumkvæði að því að stofna verkakvennafélög.“





Að síðustu getur Sumarliði um heimildamynd um Alþýðusambandið sem nú verður sýnd í fyrsta skipti. „Myndin er líklega tekin 1952 eða 1953 en hefur aldrei verið sýnd og í raun aldrei lokið við hana. Hún er varðveitt á Kvikmyndasafninu og er sennilega tekin af Óskari Gíslasyni sem var bæði ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður. Þetta er tæplega klukkustundar löng mynd og verður sýnd lítið stytt en settar inn lágmarksupplýsingar um efnið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×