Viðskipti innlent

Fjárfestir fyrir 35 milljarða á þremur árum

Svavar Hávarðsson skrifar
Fyrirhugaðar fjárfestingar Landsnets í flutningskerfinu nema hátt í 35 milljörðum króna næstu þrjú árin. Þarf að fara allt aftur til ársins 2007 til að finna sambærilegar fjárfestingar í flutningskerfi félagsins. Þetta kom fram í kynningu Nils Gústavssonar, framkvæmdastjóra framkvæmda- og rekstrarsviðs Landsnets, á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins fyrir helgi, og sagt er frá í tilkynningu.

Um ellefu milljarðar króna eru áætlaðir í fjárfestingar í flutningskerfi Landsnets á þessu ári, tæpir fjórtán milljarðar á næsta ári og tæpir tíu milljarðar árið 2018.

Verkefnið Krafla – Þeistareykir - Bakki felur í sér byggingu tveggja háspennulína, samtals rúmlega 61 kílómetri að lengd, og þriggja tengivirkja til að tengja iðnaðarsvæðið á Bakka við Þeistareykjavirkjun og virkjunina við meginflutningskerfið. Áætlanir gera ráð fyrir að verkinu ljúki í september árið 2017.

Á Norðausturlandi er lagning háspennulínu milli Kröflu og Fljótsdals í undirbúningi. Línan verður 122 kílómetrar að lengd og er mat á umhverfisáhrifum hennar á lokastigi. Reiknað er með að framkvæmdum ljúki árin 2017-18.

Undirbúningur framkvæmda er í gangi vegna Sandskeiðslínu 1, sem er 27 kílómetra löng loftlína frá Sandskeiði að Hafnarfirði, sem þarf að reisa svo hægt sé að fjarlægja Hamraneslínur 1 og 2 eins og samkomulag er um við Hafnarfjarðarbæ. Áætlað er að línan verði lögð árin 2017-2018.

Á Reykjanesi er meðal annars vinna að hefjast í næsta mánuði við Suðurnesjalínu 2, 32 kílómetra langa háspennulínu frá Hafnarfirði að Rauðamel, en unnið er að undirbúningi Fitjalínu 3, níu kílómetra langs jarðstrengs frá tengivirki á Fitjum að tengivirki Landsnets í Helguvík. Verkið felur einnig í sér stækkun tengivirkisins í Helguvík.

- shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×