Að öskra sig í form Bergur Ebbi skrifar 18. mars 2016 07:00 Ég man þegar Atkins-megrunarkúrinn kom eins og stormsveipur inn í umræðu um lýðheilsumál. Það var eitthvað svo galið við hugmyndina. Hún gengur í stuttu máli út á að besta leiðin til að grennast sé að borða fitu og kjöt en sleppa kolvetnum. Atkins-kúrinn er grundvallaður á vísindum, nánar tiltekið á kenningum bandaríska læknisins Alfreds W. Pennington sem eru orðnar meira en hálfrar aldar gamlar. Auk þess var Atkins sjálfur læknir og næringarfræðingur með doktorsgráðu. Hugmyndin á bak við Atkins-kúrinn var því alls ekki galin vegna skorts á vísindum. Hún var galin vegna þess að hún boðaði að allt sem maður hafði heyrt áður væri rugl. Fyrir tíma Atkins-kúrsins var dæmigerð grenningarmáltíð hrökkbrauð, pasta og djúsglas. Helst átti maður að vera grænmetisæta og borða einmitt enga fitu og ekkert kjöt. Það voru jú einhver vísindi á bak við það líka.Fislétt kíló Og Atkins-kúrinn virkar. Sumir segja að kílóin fjúki af manni ef maður prófar. Það er reyndar ekkert sérstaklega vísindaleg tilhugsun. Það er eitthvað svo æðisgengið að ímynda sér kíló sem fjúka. Ég ímynda mér hvert kíló sem lítinn múrstein sem spænist í sterkum vindhviðum frá magasvæðum fólks þar til ekkert er eftir nema glansandi harður sixpakk. Þetta er ölvandi retórík. Það er innri ófriður í orðasambandinu: „fjúkandi kíló“. Svona orðasambönd halda þjóðfélaginu gangandi. Kommúnistar eru ekki þeir einu sem semja ljóð. Við verðum að gefa markaðsmönnunum þessa lotu. Fjúkandi kíló eru á ljóðrænu leveli. En aftur að Atkins. Eftir á að hyggja held ég að tilkoma Atkins-kúrsins hafi breytt einhverju í þjóðfélagi okkar - og þá er ég að tala um stóra samhengið. Eftir Atkins er ekki neitt fáránlegt lengur því allt getur verið vísindalegt og allt getur borið árangur. Ég held að það sé hægt að færa vísindaleg rök fyrir því að nánast hvaða mataræði sem er geti látið kílóin fjúka. Að borða ekkert nema saltstangir er til dæmis ein hugmynd. Það góða við saltstangir er að þær drepa smám saman alla eðlilega hungurtilfinningu. Auk þess er svo endurtekningasamt að borða þær að maður gæti verið kominn með sinaskeiðabólgu í úlnliðinn áður en maður nær ráðlögðum dagskammti hitaeininga. Þá eru alls konar frábær efni í saltstöngum, til dæmis kókosolía sem er góð fyrir húð og hár.Að grennast upp í rúmi Svo er önnur vísindaleg leið til að láta kílóin fjúka. Það er ótrúlegt hvað maður brennir mörgum kaloríum við að öskra. Þetta eru einföld vísindi. Rétt eins og gaslúðrar brenna gasi þegar þeir framkalla hljóð þá þarf líkaminn að brenna hitaeiningum til að setja aukinn hljóðstyrk í rödd sína. Það góða við að grennast með öskrum er að maður þarf ekki að hreyfa sig neitt. Maður getur bara legið í rúminu og öskrað fram eftir degi. Góð hugmynd væri til dæmis að horfa á spólu sem sýnir uppháhaldsfótboltaliðið manns tapa aftur og aftur, helst út af dómaraskandal. Það mætti selja þetta sem ákveðna grenningarlausn. Ég get líka vottað það sjálfur að maður verður rosalega svangur af öskrum. Ég læstist inni í geymslu þegar ég var lítill og öskraði stanslaust í klukkutíma. Þegar ég kom út fór ég beint í ísskápinn og borðaði lifrarkæfu beint upp úr dollunni með matskeið og át svo heilan kexpakka án þess að taka umbúðirnar almennilega frá áður. Ég réði ekki við hungrið og þarna var ég bara lítill strákur. Þetta gera öskrin. En að sjálfsögðu virka öskur ekki sem grenningarmeðal ef maður svalar hungrinu sem leitar á mann. Maður yrði að öskra og svo helst að láta óla sig niður í kjölfarið, sem gæti svo leitt til meiri öskra sem væri ágætis keðjuverkun í grenningunni.Hver er asnalegur? Þetta virkar fáránlegt. En er ekkert fáránlegt að keyra í tuttugu mínútur í bíl og klæða sig í sérstök föt til að hlaupa svo á gúmmímottu sem snýst í hringi kringum tölvustýrt bretti til að grennast? Það er eiginlega alveg jafn fáránlegt og öskrin nema munurinn er sá að rosalega margir gera það. Líkamsræktarstöðvar gætu allt eins verið fullar af öskrandi fólki sem búið er að óla fast við staura. Það myndu jafn mörg kíló fjúka. Auk þess er ekkert verra að öskra en að hlaupa út frá sjónarhóli vísindanna. Sumir myndu kannski segja að öskrin skemmi raddböndin. Hlaup skemma hnén segi ég á móti og það er alveg jafn vísindalegt svar og hvað annað. Öskur eru manninum alveg jafn eðlislæg og hlaup. En nú veit ég hvað þið munuð segja næst. Þessum öskrum myndi fylgja hávaðamengun. Ekkert endilega. Ekki ef settur yrði sokkur upp í hvern og einn og svo mótorhjólahjálmur yfir það. Það er ekkert jafn grennandi og kæfð öskur. Það er vísindalega sannað að örvænting er sú tilfinning mannsins sem eykur brennslu hvað hraðast. Kílóin fjúka. Við erum bara rétt að byrja á alls konar grenningarleiðum. Leiða má að því vísindalegum líkum að ýmis konar svik, ótti eða illska geti líka leitt til þyngdartaps. Kannski finnst ykkur þetta asnalegar hugmyndir. Gott og vel. Hvað er annars að því að vera asnalegur? Asnar eru flestir í góðu formi, vel tennt dýr með góða dráttargetu. Hver veit nema að innan skamms munum við sjá fólk spennt við kerrur ganga um götur bæjarins. Öskrandi. Að sjálfsögðu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bergur Ebbi Birtist í Fréttablaðinu Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun Slökkvistarfið Eiríkur Hjálmarsson Skoðun Fæðuöryggi þjóðar, sláum í klárinn, togum í tauminn Helgi Eyleifur Þorvaldsson Skoðun Hvatning til heilbrigðisráðherra Halla Þorvaldsdóttir Skoðun Verðmætasköpun með hugvitið að vopni Ingvar Hjálmarsson Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun
Ég man þegar Atkins-megrunarkúrinn kom eins og stormsveipur inn í umræðu um lýðheilsumál. Það var eitthvað svo galið við hugmyndina. Hún gengur í stuttu máli út á að besta leiðin til að grennast sé að borða fitu og kjöt en sleppa kolvetnum. Atkins-kúrinn er grundvallaður á vísindum, nánar tiltekið á kenningum bandaríska læknisins Alfreds W. Pennington sem eru orðnar meira en hálfrar aldar gamlar. Auk þess var Atkins sjálfur læknir og næringarfræðingur með doktorsgráðu. Hugmyndin á bak við Atkins-kúrinn var því alls ekki galin vegna skorts á vísindum. Hún var galin vegna þess að hún boðaði að allt sem maður hafði heyrt áður væri rugl. Fyrir tíma Atkins-kúrsins var dæmigerð grenningarmáltíð hrökkbrauð, pasta og djúsglas. Helst átti maður að vera grænmetisæta og borða einmitt enga fitu og ekkert kjöt. Það voru jú einhver vísindi á bak við það líka.Fislétt kíló Og Atkins-kúrinn virkar. Sumir segja að kílóin fjúki af manni ef maður prófar. Það er reyndar ekkert sérstaklega vísindaleg tilhugsun. Það er eitthvað svo æðisgengið að ímynda sér kíló sem fjúka. Ég ímynda mér hvert kíló sem lítinn múrstein sem spænist í sterkum vindhviðum frá magasvæðum fólks þar til ekkert er eftir nema glansandi harður sixpakk. Þetta er ölvandi retórík. Það er innri ófriður í orðasambandinu: „fjúkandi kíló“. Svona orðasambönd halda þjóðfélaginu gangandi. Kommúnistar eru ekki þeir einu sem semja ljóð. Við verðum að gefa markaðsmönnunum þessa lotu. Fjúkandi kíló eru á ljóðrænu leveli. En aftur að Atkins. Eftir á að hyggja held ég að tilkoma Atkins-kúrsins hafi breytt einhverju í þjóðfélagi okkar - og þá er ég að tala um stóra samhengið. Eftir Atkins er ekki neitt fáránlegt lengur því allt getur verið vísindalegt og allt getur borið árangur. Ég held að það sé hægt að færa vísindaleg rök fyrir því að nánast hvaða mataræði sem er geti látið kílóin fjúka. Að borða ekkert nema saltstangir er til dæmis ein hugmynd. Það góða við saltstangir er að þær drepa smám saman alla eðlilega hungurtilfinningu. Auk þess er svo endurtekningasamt að borða þær að maður gæti verið kominn með sinaskeiðabólgu í úlnliðinn áður en maður nær ráðlögðum dagskammti hitaeininga. Þá eru alls konar frábær efni í saltstöngum, til dæmis kókosolía sem er góð fyrir húð og hár.Að grennast upp í rúmi Svo er önnur vísindaleg leið til að láta kílóin fjúka. Það er ótrúlegt hvað maður brennir mörgum kaloríum við að öskra. Þetta eru einföld vísindi. Rétt eins og gaslúðrar brenna gasi þegar þeir framkalla hljóð þá þarf líkaminn að brenna hitaeiningum til að setja aukinn hljóðstyrk í rödd sína. Það góða við að grennast með öskrum er að maður þarf ekki að hreyfa sig neitt. Maður getur bara legið í rúminu og öskrað fram eftir degi. Góð hugmynd væri til dæmis að horfa á spólu sem sýnir uppháhaldsfótboltaliðið manns tapa aftur og aftur, helst út af dómaraskandal. Það mætti selja þetta sem ákveðna grenningarlausn. Ég get líka vottað það sjálfur að maður verður rosalega svangur af öskrum. Ég læstist inni í geymslu þegar ég var lítill og öskraði stanslaust í klukkutíma. Þegar ég kom út fór ég beint í ísskápinn og borðaði lifrarkæfu beint upp úr dollunni með matskeið og át svo heilan kexpakka án þess að taka umbúðirnar almennilega frá áður. Ég réði ekki við hungrið og þarna var ég bara lítill strákur. Þetta gera öskrin. En að sjálfsögðu virka öskur ekki sem grenningarmeðal ef maður svalar hungrinu sem leitar á mann. Maður yrði að öskra og svo helst að láta óla sig niður í kjölfarið, sem gæti svo leitt til meiri öskra sem væri ágætis keðjuverkun í grenningunni.Hver er asnalegur? Þetta virkar fáránlegt. En er ekkert fáránlegt að keyra í tuttugu mínútur í bíl og klæða sig í sérstök föt til að hlaupa svo á gúmmímottu sem snýst í hringi kringum tölvustýrt bretti til að grennast? Það er eiginlega alveg jafn fáránlegt og öskrin nema munurinn er sá að rosalega margir gera það. Líkamsræktarstöðvar gætu allt eins verið fullar af öskrandi fólki sem búið er að óla fast við staura. Það myndu jafn mörg kíló fjúka. Auk þess er ekkert verra að öskra en að hlaupa út frá sjónarhóli vísindanna. Sumir myndu kannski segja að öskrin skemmi raddböndin. Hlaup skemma hnén segi ég á móti og það er alveg jafn vísindalegt svar og hvað annað. Öskur eru manninum alveg jafn eðlislæg og hlaup. En nú veit ég hvað þið munuð segja næst. Þessum öskrum myndi fylgja hávaðamengun. Ekkert endilega. Ekki ef settur yrði sokkur upp í hvern og einn og svo mótorhjólahjálmur yfir það. Það er ekkert jafn grennandi og kæfð öskur. Það er vísindalega sannað að örvænting er sú tilfinning mannsins sem eykur brennslu hvað hraðast. Kílóin fjúka. Við erum bara rétt að byrja á alls konar grenningarleiðum. Leiða má að því vísindalegum líkum að ýmis konar svik, ótti eða illska geti líka leitt til þyngdartaps. Kannski finnst ykkur þetta asnalegar hugmyndir. Gott og vel. Hvað er annars að því að vera asnalegur? Asnar eru flestir í góðu formi, vel tennt dýr með góða dráttargetu. Hver veit nema að innan skamms munum við sjá fólk spennt við kerrur ganga um götur bæjarins. Öskrandi. Að sjálfsögðu.
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun