Í næstu viku verða dömubindi og túrtappar fáanleg á öllum salernum Hagaskóla sem notuð eru af stelpum. Þetta er liður af fræðsluvikunni Túrvæðingin sem nýstofnað feministafélag skólans, Ronja (eftir samnefndri ræningjadóttur), stendur fyrir. Þetta kom fram á málþingi um kynhegðun, klámvæðingu og jafnréttisbaráttu ungs fólks sem haldið var í húsnæði Menntasviðs Háskóla Íslands fyrir troðfullu húsi í Stakkahlíðinni á föstudag. Yfirskriftin var „Ef þú ekki tottar, þú dagar upp og drepst!“.
Una Torfadóttir, ein þeirra sem unnu Skrekk í fyrra með atriðinu „Elsku stelpur“, tilkynnti þetta í lok fyrirlesturs síns um tilurð og eftirmála atriðsins. Þessi dóttir þingmannsins Svandísar Svavarsdóttur er nú í tíunda bekk þar og mjög virk í feministafélaginu. Formaður félagsins og stofnandi heitir Margrét Snorradóttir, vinkona Unu sem einnig tók þátt í siguratriði Skrekks í fyrra.
„Við erum að berjast fyrir því að borgin útvegi dömubindi og túrtappa á klósett í öllum skólum,“ sagði Una í viðtali við Vísi skömmu eftir að hún lauk erindi sínu á málþinginu. „Við viljum skapa þrýsting á borgaryfirvöld þess efnis að þetta verði svona á öllum almenningssalernum sem eru rekin af borginni. Vonandi taka einkafyrirtæki við sér líka. Þetta er í rauninni alveg jafn sjálfsagt og að hafa klósettpappír og sápu“.
Ronja fékk styrk frá heildsölunum Nathan & Olsen og Isam sem skaffa félaginu 500 túrtappa og dömubindi af lagerum sínum. Á fræðsluvikunni verður líka sýnt myndband sem félagið vann á göngum skólans.
„Við gengum á milli krakka í skólanum og spurðum þau hvað þau vissu um blæðingar? Við ætlum svo að selja kökur, kex og svoleiðis dóteri. Svo vonandi verður haldið umræðukvöld líka,“ segir Una að lokum.
