„Nei, við áttum svo sannarlega ekki von á þessu,“ svarar Normann Winkler, þar sem hann einbeitir sér að því að standa í fæturna á útsýnisplaninu við Gullfoss.

Þegar útsendarar Fréttablaðsins heimsóttu staðinn eftir hádegi á miðvikudag virtu allir sem þar voru þessa lokun en það mun ekki alltaf vera tilfellið eins og fram hefur komið.
Þau Anja Eberhardt og Normann Winkler sem eru hér á Íslandi í sex daga virtust gáttuð á aðstæðum við Gullfoss. „Þetta er erfið leið,“ sagði Normann og virtist feginn að vera á leiðinni til baka.
Anja tók heilshugar undir með Normann. Þau virtust þó taka málinu með jafnaðargeði og alls ekki ætla að láta það spilla ánægjunni af Íslandsheimsókninni sem var aðeins á fyrsta degi. Næsta dag ætluðu þau í Bláa lónið. Það hefur sennilega verið hættuminna.
Ungt par gaf sér góðan tíma til myndatöku á þeim stað þar sem útsýnisplanið endaði og við tók lokaður stígurinn niður að fossinum.
„Þetta er ekkert vandamál fyrir okkur,“ sagði ungi maðurinn sem kvaðst heita David og búa í Manchester í Englandi með Han vinkonu sinni. Bæði væru þau þó kínversk tók David fram áður en hann stillti sér góðfúslega upp með Han fyrir myndatöku.

Um árabil hefur verið rætt um að úrbætur þurfi við Gullfoss. Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu, segir fossinn í umsjón Umhverfisstofnunar sem annist þar hálkuvarnir, söltun og söndun. Ekki var sandkorn að sjá á svæðinu þegar Fréttablaðið var þar á ferð. Ekki náðist í fulltrúa Umhverfisstofnunar í gær.
„Þetta er mjög erfið staða að eiga við í alla staði. Það virðist einhvern veginn ekki vera hægt að landa þessu almennilega,“ segir Ásborg. „Við í ferðaþjónustunni erum núna í svo nýjum aðstæðum. Það var ekki svona ofboðslegur fjöldi hér áður fyrr á þessum tíma.“