Eitthvað um ástina og lífið Brynhildur Björnsdóttir skrifar 10. mars 2016 11:30 Bækur Síðasta ástarjátningin Dagur Hjartarson Útgefandi: JPV útgáfa Fjöldi síðna: 240 bls. Kápuhönnun: Emilía Ragnarsdóttir Prentun: Ísafoldarprentsmiðja 2007 er ártal sem er Íslendingum ekki ótamara en 1918 og 1944. 2007 er árið sem við vitnum til sem ársins þegar neysluruglið og sjálfbirgingurinn náði í skottið á okkur. Árið þegar við héldum að allt væri í lagi en vissum í rauninni að svo var ekki. Árið þegar við létum glepjast af hugmyndinni um að við hefðum á einhvern furðulegan hátt fengið vinning í alheimshappdrættinu sem við áttum ekki skilið en byrjuðum samt að eyða áður en nokkur maður kæmist að því að við værum ekki vinningshafarnir í raun. Árið sem ísbirnir gengu í land og eyðslan náði hámarki. Árið fyrir hrun. Síðasta ástarjátningin gerist einmitt á þessu ári, 2007, árið sem Davíð Oddsson var seðlabankastjóri. Hún hefst að hausti þegar ungur maður með bók verður ástfanginn af ungri konu með hund og hún elskar hann á móti. Hann virðist reyndar aldrei trúa því alveg að hann hafi verið svona heppinn og virðist ekki finna hamingjuna í sambandinu fyrr en í endurliti. Meðfram þróun ástarsambands þeirra segir frá eins konar hliðarsjálfi sögumannsins, æskuvini að vestan sem hatast svo við Davíð Oddsson að hann ákveður að gera af honum risastóra leirstyttu ásamt sögumanni sem veit ekki hvaðan á hann stendur veðrið en lætur samt heillast af verkefninu og gefur því stöðugt meira og meira, jafnvel andlit sitt, jafnvel nafn. Sögumaðurinn er reyndar afskaplega aðgerðalítill í meirihluta sögunnar, hann lætur að stjórn þessara tveggja ólíku afla í lífi sínu, konunnar og vinarins, er löngu búinn að týna nafninu sínu, veit ekki hver hann er án skilgreininga þeirra tveggja á tilvist hans. Tíminn leikur stórt hlutverk í sögunni, sagt er frá augnablikum elskenda sem vara allan daginn, amma sögumanns lifir í glötuðum og ómörkuðum tíma, næturvaktir setja samhengið við umheiminn úr skorðum og þannig mætti lengi telja. Yfir öllu vofir svo Davíð Oddsson sjálfur, eins konar sólúr sem varpar skugga sínum á allt, mælikvarði tímans, holdgervt „andrúmsloft aldarinnar“, eins og segir í bókinni. Einnig er leikið með ljós og myrkur, ástkonan verður sögumanni ljósið í myrkrinu sem hann getur ekki leyft sér að eiga en getur samt ekki lifað án. Ef vilji er fyrir hendi má lesa söguna sem dæmisögu um hinn venjulega Íslending árið 2007 sem kunni ekki að njóta, þorði ekki að vona, vissi að eitthvað var yfirvofandi en gat samt ekki með nokkru móti tekið til bragðs neitt það sem gæti orðið honum til bjargar. Svo má líka lesa hana sem fallega, ljúfsára ástarsögu og njóta þess að anda að sér myndunum sem sögumaður dregur upp af samræðum elskendanna sem fara svo lítið fram með orðunum sem sögð eru og svo mikið fram á einhvern allt annan hátt sem þó tekst að koma til skila í textanum. Það má líka blanda þessu saman og segja að bókin fjalli um ástarsamband þjóðarinnar við Sjálfstæðisflokkinn árið fyrir hrun, hvernig lífið var of gott til að vera satt. Og svo má líka bara leyfa sér að sleppa því að greina og njóta þess í staðinn að lesa svona vel skrifaðar, fyndnar og fallegar bækur. Niðurstaða: Síðasta ástarjátningin er fallega skrifuð bók, full af pælingum, þunglyndi, fyndni, ljóðbrotum og ást. Menning Mest lesið Brostnar væntingar á Frostrósum Gagnrýni „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Lífið Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Lífið Frægir fundu ástina 2024 Lífið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Lífið Kolféll fyrir Amsterdam og hollenskum strák Lífið „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Lífið Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Lífið Límdi fyrir munninn á öllum við borðið Lífið Að velja rangan maka: „Við gerum oft svo lítið úr ástarmálunum“ Áskorun Fleiri fréttir Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira
Bækur Síðasta ástarjátningin Dagur Hjartarson Útgefandi: JPV útgáfa Fjöldi síðna: 240 bls. Kápuhönnun: Emilía Ragnarsdóttir Prentun: Ísafoldarprentsmiðja 2007 er ártal sem er Íslendingum ekki ótamara en 1918 og 1944. 2007 er árið sem við vitnum til sem ársins þegar neysluruglið og sjálfbirgingurinn náði í skottið á okkur. Árið þegar við héldum að allt væri í lagi en vissum í rauninni að svo var ekki. Árið þegar við létum glepjast af hugmyndinni um að við hefðum á einhvern furðulegan hátt fengið vinning í alheimshappdrættinu sem við áttum ekki skilið en byrjuðum samt að eyða áður en nokkur maður kæmist að því að við værum ekki vinningshafarnir í raun. Árið sem ísbirnir gengu í land og eyðslan náði hámarki. Árið fyrir hrun. Síðasta ástarjátningin gerist einmitt á þessu ári, 2007, árið sem Davíð Oddsson var seðlabankastjóri. Hún hefst að hausti þegar ungur maður með bók verður ástfanginn af ungri konu með hund og hún elskar hann á móti. Hann virðist reyndar aldrei trúa því alveg að hann hafi verið svona heppinn og virðist ekki finna hamingjuna í sambandinu fyrr en í endurliti. Meðfram þróun ástarsambands þeirra segir frá eins konar hliðarsjálfi sögumannsins, æskuvini að vestan sem hatast svo við Davíð Oddsson að hann ákveður að gera af honum risastóra leirstyttu ásamt sögumanni sem veit ekki hvaðan á hann stendur veðrið en lætur samt heillast af verkefninu og gefur því stöðugt meira og meira, jafnvel andlit sitt, jafnvel nafn. Sögumaðurinn er reyndar afskaplega aðgerðalítill í meirihluta sögunnar, hann lætur að stjórn þessara tveggja ólíku afla í lífi sínu, konunnar og vinarins, er löngu búinn að týna nafninu sínu, veit ekki hver hann er án skilgreininga þeirra tveggja á tilvist hans. Tíminn leikur stórt hlutverk í sögunni, sagt er frá augnablikum elskenda sem vara allan daginn, amma sögumanns lifir í glötuðum og ómörkuðum tíma, næturvaktir setja samhengið við umheiminn úr skorðum og þannig mætti lengi telja. Yfir öllu vofir svo Davíð Oddsson sjálfur, eins konar sólúr sem varpar skugga sínum á allt, mælikvarði tímans, holdgervt „andrúmsloft aldarinnar“, eins og segir í bókinni. Einnig er leikið með ljós og myrkur, ástkonan verður sögumanni ljósið í myrkrinu sem hann getur ekki leyft sér að eiga en getur samt ekki lifað án. Ef vilji er fyrir hendi má lesa söguna sem dæmisögu um hinn venjulega Íslending árið 2007 sem kunni ekki að njóta, þorði ekki að vona, vissi að eitthvað var yfirvofandi en gat samt ekki með nokkru móti tekið til bragðs neitt það sem gæti orðið honum til bjargar. Svo má líka lesa hana sem fallega, ljúfsára ástarsögu og njóta þess að anda að sér myndunum sem sögumaður dregur upp af samræðum elskendanna sem fara svo lítið fram með orðunum sem sögð eru og svo mikið fram á einhvern allt annan hátt sem þó tekst að koma til skila í textanum. Það má líka blanda þessu saman og segja að bókin fjalli um ástarsamband þjóðarinnar við Sjálfstæðisflokkinn árið fyrir hrun, hvernig lífið var of gott til að vera satt. Og svo má líka bara leyfa sér að sleppa því að greina og njóta þess í staðinn að lesa svona vel skrifaðar, fyndnar og fallegar bækur. Niðurstaða: Síðasta ástarjátningin er fallega skrifuð bók, full af pælingum, þunglyndi, fyndni, ljóðbrotum og ást.
Menning Mest lesið Brostnar væntingar á Frostrósum Gagnrýni „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Lífið Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Lífið Frægir fundu ástina 2024 Lífið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Lífið Kolféll fyrir Amsterdam og hollenskum strák Lífið „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Lífið Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Lífið Límdi fyrir munninn á öllum við borðið Lífið Að velja rangan maka: „Við gerum oft svo lítið úr ástarmálunum“ Áskorun Fleiri fréttir Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira