Innlent

Innanríkisráðherra verður að loka neyðarbrautinni eða borga milljón á dag

Bjarki Ármannsson skrifar
Dómur fallinn í máli Reykjavíkurborgar gegn ríkinu vegna lokunar minnstu flugbrautar Reykjavíkurflugvallar.
Dómur fallinn í máli Reykjavíkurborgar gegn ríkinu vegna lokunar minnstu flugbrautar Reykjavíkurflugvallar. Vísir/Baldur
Loka á NA-SV braut Reykjavíkurflugvallar innan sextán vikna og endurskoða skipulagsreglur fyrir flugvöllinn. Verði það ekki gert leggjast dagsektir upp á milljón krónur á ríkið. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sem Reykjavíkurborg höfðaði á hendur innanríkisráðuneytinu.

Með dómnum er innanríkisráðherra, Ólöfu Nordal, gert að standa við samning sem fyrri innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, gerði við Reykjavíkurborg og fleiri aðila árið 2013 um lokun flugbrautarinnar, sem í daglegu tali gengur undir nafninu neyðarbrautin.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra.Vísir/Ernir
Ólöf hafnaði því í fyrra að loka brautinni en meirihluti borgarstjórnar taldi að með því væri ekki staðið við samningana frá 2013. Reykjavíkurborg hefur gefið út framkvæmdaleyfi á Hlíðarenda þar sem Valsmenn hf. fyrirhuga byggingu um 600 íbúða, sem myndi skarast við aðflug að neyðarbrautinni.

Sjá einnig: Innanríkisráðherra segir Reykjavíkurflugvöll verða óbreyttan um ófyrirséða framtíð

Reykjavíkurborg höfðaði málið upphaflega í desember síðastliðnum en Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði því frá þar sem hann taldi kröfugerð borgarinnar óljósa. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lýsti því þá yfir að málarekstur borgarinnar myndi þó halda áfram.

Héraðsdómur féllst á það að með samningnum frá 2013 hefði þáverandi innanríkisráðherra skuldbundið sig til þess að loka flugbrautinni. 

Ríkið var í dag jafnframt dæmt til þess að greiða borginni tvær milljónir króna í málskostnað. Gera má ráð fyrir því að dómnum verði áfrýjað til Hæstaréttar, enda miklir hagsmunir undir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×