Sport

Leikarnir í Ríó þeir síðustu hjá Bolt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Usain Bolt hefur staðfest að Ólympíuleikarnir í Ríó í sumar verða hans síðustu. Hann stefnir þó að því að vinna þrenn gullverðlaun á leikunum.

Glen Mills, þjálfari Bolt, hafði gefið í skyn að Bolt kynni að halda áfram í fjögur ár í viðbót og keppa á leikunum í Tókýó árið 2020 en sjálfur útilokaði Bolt það.

„Þetta verða pottþétt mínir síðustu Ólympíuleikar,“ sagði hann. „Það verður erfitt fyrir mig að halda áfram í fjögur ár og þá sérstaklega að finna hvatninguna til þess ef ég næ markmiðum mínum í Ríó.“

Bolt á þegar sex gullverðlaun frá Ólympíuleikunum í bæði Peking 2008 og London 2012. Hann hefur áður sagt að heimsmeistaramótið í London árið 2017 verður hans síðasta stórmót.

„Minn stærsti draumur er að vinna aftur þrenn gullverðlaun á Ólympíuleikum. Það er það sem ég stefni á,“ sagði Bolt og ítrekaði ætlun sína að verða fyrsti maðurinn til að hlaupa 200 m hlaup undir nítján sekúndum.

Sjálfur á hann heimsmetið í greininni, sem er 19,19 sekúndur.

„Það er það eina sem mig langar virkilega, virkilega mikið til að gera,“ sagði Bolt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×