Innlent

Starfsmenn í Straumsvík komnir aftur til starfa

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
"Verkfallinu er frestað frá laugardeginum og þangað til niðurstöður atkvæðagreiðslna liggja fyrir," segir formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar.
"Verkfallinu er frestað frá laugardeginum og þangað til niðurstöður atkvæðagreiðslna liggja fyrir," segir formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar. Vísir/Vilhelm
Vinnustöðvun í álverinu í Straumsvík hefur verið frestað tímabundið á meðan greidd verða atkvæði um miðlunartillögu sem ríkissáttasemjari lagði fram á laugardag. Reiknað er með að niðurstöður liggi fyrir fljótlega eftir páska.

„Verkfallinu er frestað frá laugardeginum og þangað til niðurstöður atkvæðagreiðslna liggja fyrir, sem er þá 11. apríl. Það verður svo núna á næstunni sem menn reyna að kynna þetta fyrir starfsmönnum fyrirtækisins sem hafa þá umhugsunarfrest yfir páska," segir Kolbeinn Gunnarsson, formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar.

Ríkissáttasemjari taldi ljóst að frekari sáttaumleitanir myndu ekki bera árangur og lagði því fram miðlunartillögu í kjaradeilu verkalýðsfélaga í álverinu. Haldnir hafa verið 39 sáttafundir frá því að deilunni var vísað til ríkissáttasemjara í apríl í fyrra. Þá hefur verið boðað til allsherjarverkfalls í tvígang á þessum tíma en hætt var við þau í bæði skiptin. Um tíma var yfirvinnubann í gildi en hinn 1. mars síðastliðinn hófst ótímabundin vinnustöðvun á útflutningi á áli. Kolbeinn segist aðspurður ekki geta svarað til um það hvort von sé á að tillagan verði samþykkt, né hvers eðlis hún sé.

„Ég get ekkert sagt til um það. Við leggjum þetta alfarið í mat þeirra sem starfa þarna á vinnustaðnum og það er þeirra að dæma og sjá hvað er inni í miðlunartillögunni. Ég held það sé rétt að bíða eftir að þeir gefi svar sitt."

Verði tillagan samþykkt lýsa deiluaðilar því yfir að ágreiningi sé lokið, ásamt því sem fyrirtækið skuldbindur sig til að draga málshöfðun vegna lögbanna til baka.


Tengdar fréttir

Slæmt að yfirmenn standi í útskipun

"Þeir hafa mikilvægum skyldum að sinna annars staðar í verksmiðjunni sem er ekki sinnt á meðan. Það er vissulega mjög slæmt,“ segir Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan á Íslandi, um yfirmenn álversins í Straumsvík sem hafa gengið í störf hafnarverkamanna fyrirtækisins undanfarið og sinnt útskipun á meðan á verkfalli stendur.

Deilan harðnar hjá ISAL í Straumsvík

Lestun áls í þriðja flutningaskipið frá því verkfallsaðgerðir hófust er byrjuð. Lögbann sýslumanns á hluta aðgerða Verkalýðsfélagsins Hlífar var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×