Aðspurður segir hann ólíklegt að hans eigin flokksmenn muni stökkva á lestina með stjórnarandstöðunni og kjósa með þingrofi. „Ég hef enga ástæðu til að ætla það,“ segir Bjarni en nokkrir flokksfélaga hans hafa sagt að það hafi skapað stjórnarsamstarfinu óþægindi að forsætisráðherra hafi ekki upplýst um eignir eiginkonu sinnar á Bresku Jómfrúareyjum fyrir síðustu alþingiskosningar. Í fyrradag kom í ljós að Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal innanríkisráðherra hafi áður tengst félögum í skattaskjólum.
Stjórnarandstaðan mun leggja til að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fundi tafarlaust um tengsl þriggja ráðherra í ríkisstjórninni við aflandsfélög eða skattaskjól og að umboðsmaður Alþingis verði kallaður fyrir nefndina og kannað hvernig hann geti brugðist við.
Bjarni á ekki von á því að aðkoma umboðsmanns Alþingis muni draga fleiri upplýsingar fram á sjónarsviðið. „Ég skal ekkert um það segja, ég á ekki von á því sérstaklega,“ segir hann. „Ef fólk sér ástæðu til að virkja kraft stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eða eftir atvikum umboðsmann Alþingis, þá er það sjálfsagt að menn geri það. Ég hef ekkert við það að athuga.“

„Við erum sammála um það að ríkisstjórnin er rúin trausti og það er mikilvægt að þjóðin fái að ganga að kjörborðinu og kjósa upp á nýtt,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. „Þjóðin var leynd upplýsingum í aðdraganda síðustu kosninga sem hún á rétt á að séu uppi á borði þegar hún gerir upp hug sinn.“
Ekki liggur fyrir útfærsla á tillögunni, til að mynda með tilliti til þess hvenær ætti að kjósa.
„Stóra spurningin sem alþingismenn stjórnarmeirihlutans þurfa að spyrja sig er ekki hvort það sé hægt að berja sig til hlýðni við ríkisstjórnarmeirihlutann heldur hvort þeir séu virkilega á þeim stað að þeir óttist kjósendur sína,“ segir Árni aðspurður hvort að hann telji einhverjar líkur á að þingmenn stjórnarmeirihlutans muni kjósa með þingrofi.

Björt Framtíð, Vinstri Græn og Samfylkingin hafa mælst með afar lágt fylgi undanfarna mánuði. Bæði Óttarr og Árni óttast ekki kosningar þrátt fyrir það og Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri Grænna sagði í samtali við Stöð 2 í gærkvöldi að aðstæður einstaka flokka skipti ekki máli í þessu samhengi.
Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 31. mars.