Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, sagði í viðtali við Ísland í Bítið á Bylgjunni í morgun að atburðir síðustu daga hefðu skaðað flokk sinn.
„Við sjáum það bara strax á skoðanakönnunum,“ sagði Sigurður Ingi í viðtalinu og viðurkenndi að það hefði ekki komið sér á óvart miðað við umfjöllun Kastljóss um Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og tengsl hans við aflandsfélagið Wintris.
Sigurður talaði um það í þættinum að hann hefði komið inn í íslensk stjórnmál á tíma sem þau hefðu tapað trausti. Síðan þá hefði flokknum gengið mjög vel þar sem boðið hafi verið upp á öflug mál sem þjóðin hafi verið tilbúin að hlusta á. Næst beindi hann tali sínu að aflandseignum Íslendinga.
„En það þarf að taka á þessum gríðarlega vanda. Nú veit ég ekki hvort það eru yfir þúsund Íslendingar sem eiga fyrirtæki á skráða reikninga erlendis og kannski ekki allt með eðlilegum hætti. Það þarf að ganga alla leið í þeim málum“.
Sigmundur fær tækifæri til þess að byggja aftur upp trúnað
Um ákvörðun forsætisráðherra að stíga til hliðar hafði hann þetta að segja;
„Nú fær hann það tækifæri til þess að byggja upp þann trúnað sem hann þarf. Annars vegar við flokksmenn Framsóknarflokksins og hins vegar við kjósendur í landinu“.
Þegar þáttastjórnandi spurði hvort Sigmundur hefði átt nokkurra kosta völ en að segja af sér svaraði hann;
„Við höfum oft séð það að fólk hefur verið hvatt til slíks en það hefur ekki gert það. Okkur fannst það virðingavert af honum til þess að skapa ró í samfélaginu um nauðsynleg verkefni. Eins og hann hefur sagt þá vildi hann óska þess að þessi mistök hefðu aldrei orðið og að þessi reikningur væri ekki til“.
