Sport

Annað áfall fyrir Rússa: Ólympíumeistari fellur aftur á lyfjaprófi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tatyana Beloborodova, áður Lysenko, er á leið í annað keppnisbann.
Tatyana Beloborodova, áður Lysenko, er á leið í annað keppnisbann. vísir/getty
Tatyana Beloborodova, Ólympíumeistari kvenna í sleggjukasti, er komin í hóp fjölmargra rússneskra frjálsíþróttamanna sem hafa fallið á lyfjaprófi undanfarin misseri.

Alþjóðafrjálsíþróttasambandið, IAAF, greindi frá því að Beloborodova, sem áður bar eftirnafnið Lysenko, féll á lyfjaprófi og á hún yfir höfði sér að minnsta kosti tveggja ára keppnisbann.

Þetta er í annað sinn sem Beloborodova sem þessi tvöfaldi heimsmeistari fellur á lyfjaprófi en hún var dæmd í tveggja ára keppnisbann árið 2007 þegar sterar fundust í lyfsýni hennar.

Beloborodova hélt Evrópumeistaratitlinum sem hún vann í Gautaborg árið 2006 en heimsmet hennar upp á 78,61 metra frá því í maí 2007 var þurrkað út eftir að upp komst um lyfjamisnotkunina.

Þessi tíðindi eru mikið áfall fyrir frjálsíþróttayfirvöld í Rússlandi sem hafa verið að reyna að hreinsa til hjá sér eftir að upp komst um stórfellt og kerfisbundið lyfjamisferli á síðasta ári.

Rússneskir frjálsíþróttamenn mega ekki keppa á alþjóðlegum vettvangi og eins og staðan er verður þeim meinuð þátttaka á Ólympíuleikunum í Ríó í sumar ef ekkert breytist.

Rússar hafa beðist vægðar og munu gera grein fyrir máli sínu og útskýrt hvað þeir hafa gert til að gera hreint hjá sér á næstu vikum. Þeir vonast til að geta sent frjálsíþróttafólk sitt á Ólympíuleikana.

Búist er við að Alþjóðafrjálsíþróttsambandið taki ákvörðun um framhaldið á fundi í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×