Erlent

Ted Cruz velur sér varaforsetaefni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Cruz og Fiorina í faðmlögum.
Cruz og Fiorina í faðmlögum. Vísir/Getty
Ted Cruz, forsetaframbjóðandi Repúblikana, valdi í dag Carly Fiorina sem varaforsetaefni sitt. Telja stjórnmálaskýrendur ytra að með valinu sé Cruz að reyna að ná vopnum sínum á nýjan leik en afar ólíklegt er þó að Cruz hljóti útnefningu flokks síns.

„Eftir mikla íhugun og bænir hef ég komist að þeirri niðurstöðu að verði ég kjörinn forseti Bandaríkjanna muni Carly Fiorina verða minn varaforseti,“ sagði Cruz á framboðsfundi í Indianapolis.

Carly Fiorina var meðal þeirra sem buðu sig fram til forseta fyrir Repúblikana-flokkinn í forkosningunum en hún dró framboð sitt til baka í mars og lýsti þá yfir stuðningi sínum við Cruz. Áður var hún helst fræg fyrir að hafa verið forstjóri tæknifyrirtækisins Hewlett-Packard á árunum 1999 til 2005.

Fiorina lenti ítrekað í deilum við Donald Trump, líklegasta forsetaefni Repúblikana-flokksins, á meðan hún var í framboði. Afar ólíklegt þykir að Cruz muni ná Trump eftir að sá síðarnefndi sópaði til sín kjörmönnum í þeim fimm forkosningum sem fram fóru í fyrrinótt.

Donald Trump segir að val Cruz skipti engu máli

Donald Trump var fljótur að svara þessu útspili Cruz og deildi myndbandi úr kosningabaráttunni á Twitter-síðu sinni þar sem sjá má Fiorina segja að Cruz væri reiðubúinn til þess að gera hvað sem er til þess að sigra í kosningunum.

Skilaboðin frá herbúðum Trump varðandi val Cruz á varaforsetaefni voru einföld, það væri tímaeyðsla að velta þessu fyrir sér svo líklegur væri yfirvofandi sigur Trump. Trump hefur nú þegar tryggt sér stuðning 967 kjörmanna en Cruz aðeins 562. Alls þarf stuðning 1237 kjörmanna.

Alls eiga eftir að fara fram forkosningar í tíu ríkjum Bandaríkjanna. Þær næstu fara fram 3. maí næstkomandi í Indiana-ríki en forkosningunum lýkur þann 7. júní þegar kosið verður í fimm ríkjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×