Enski boltinn

Þorvaldur um Hillsborough: Þetta er eitthvað sem menn gleyma ekki í bráð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dómur féll í Hillsborough-málinu í síðustu viku en þar vorur stuðningsmenn Liverpool sýknaðir af allri sakargift og lögreglan í South Yorkshire fékk algjöra falleinkunn.

Þorvaldur Örlygsson gekk í raðir Nottingham Forest tímabilið eftir Hillsborough og var þar í kringum menn sem upplifðu þennan hræðilega atburð sem leikmenn inn á vlelinum.

„Þetta var mjög áhrifamikið og enn þann dag í dag eru menn að klára að dæma í þessu máli. Þetta var mjög sorglegt og auðvitað eru miklar tilfinningar í kringum þetta, aðallega hjá stuðningsmönnum Liverpool,“ sagði Þorvaldur í Messunni á Stöð 2 Sport 2 HD í gær.

„Þetta hafði líka áhrif á leikmennina. Þeir vissu ekki hvað var að gerast þegar þeir voru kallaðir inn í klefa og vissu ekki hvað var að gerast. Þetta er hlutur sem menn gleyma ekki í bráð,“ sagði Þorvaldur en Arnar Gunnlaugsson lýsti sinni upplifun af slysinu.

„Ég man eftir þessu því leikurinn var sýndur í beinni og það var enginn sjónvarpsáhorfandi sem áttaði sig á því hvað var að gerast. Allt í einu byrja áhorfendur að koma inn á völlinn en maður vissi aldrei neitt.“

„Nú 27 árum seinna er réttlætið að koma í ljós en þetta er búið að liggja sem þungur baggi ekki bara á ensku knattspyrnunni heldur bara ensku þjóðinni.“

„Við kynntumst því þegar við áttum heima þarna úti hvað mikið var talað um þetta og reglulega kom þetta í blöðunum,“ sagði Arnar og Þorvaldur bætti við:

„Pólitíkin blandast inn í þetta líka og menn að fela ýmsa hluti. En það er gott að það sé fallinn dómur og menn geta þá horft fram á veginn í þessu.“

Alla umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×