Þetta er í þriðja sinn sem bandarískur hermaður fellur í Írak á síðustu mánuðum.
Samkvæmt Reuters fréttaveitunni er sjaldgæft að ISIS-liðar nái að brjóta sér leið í gegnum víglínu Kúrda. Allt frá því að Bandaríkin byrjuðu að styðja Kúrda í norðanverðu Írak í ágúst 2014, hafa Kúrdar ýtt ISIS hægt og rólega til baka.
Yfirmaður Peshmergasveita Kúrda segir þetta vera stærstu árás ISIS í marga mánuði. Tekist hafi að frelsa bæinn sem ISIS liðar tóku með aðstoð loftárása, en bardagar standi þó enn yfir.
Ash Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að bandaríski hermaðurinn hafi fallið nærri Irbil, norður af Mosul. Hann hafi fallið „vegna skothríðar frá óvini“.
AP fréttaveitan hefur heimildir fyrir því að hann hafi verið þrjá til fimm kílómetra fyrir aftan víglínuna þegar hann féll. Þar var hann að leiðbeina Peshmergasveitunum í orrustunni.