Lífið

Áhorfendur bauluðu eftir sýningu á nýjustu mynd Kristen Stewart í Cannes

Birgir Olgeirsson skrifar
Leikstjórinn Olivier Assayas ásamt Kristen Stewart.
Leikstjórinn Olivier Assayas ásamt Kristen Stewart. Vísir/EPA
Áhorfendur bauluðu eftir að sýningu á kvikmyndinni Personal Shopper lauk á kvikmyndahátíðinni í Cannes í gærkvöldi. Leikstjóri myndarinnar er Olivier Assayas en með aðalhlutverk myndarinnar fer leikkonan Kristen Stewart. Myndin er í grunninn draugasaga sem gerist í undirheimum tískuheimsins í París.

Saman eiga þau að baki myndina Clouds of Sils Maria sem kom út fyrir tveimur árum.

Flestir eru þeirrar skoðunar að áhorfendur hafi baulað við lok sýningar á Personal Shopper vegna endaloka myndarinnar. Eru þau sögð frekar opin þar sem myndin á skjánum dofnar einfaldlega út.

„Þetta gerist stundum að áhorfendur skilja hreinlega ekki endinn. Hann er hins vegar alveg skýr í mínum huga,“ sagði Assayas á blaðamannafundi í Cannes í dag þar sem bæði hann og Stewart báru sig vel.

„Þegar þú kemur til Cannes ertu búinn undir hvað sem er. Maður fer bara með straumnum,“ sagði Assayas og bætti Stewart við hlæjandi: „Til að hafa það á hreinu, þá bauluðu ekki allir.“

Á vef Vulture er tekið fram að áhorfendur kvikmyndahátíðarinnar í Cannes geti verið ansi grimmir og hlífi engum. Leikstjórinn Gus Van Sant hlaut eitt sinn aðalverðlaun hátíðarinnar, Gullpálmann, fyrir myndina Elephant en baulað var við lok sýningar á mynd hans Sea of Trees á hátíðinni í fyrra.

Franski leikstjórinn Michael Hazanavicius hlaut Óskarinn fyrir myndina The Artist en þegar hann mætti með myndina The Search á Cannes ári síðar var baulað á hann.

Tveimur árum eftir að danski leikstjórinn Nicolast Winding Refn hlaut leikstjóraverðlaunin á Cannes fyrir myndina Drive var baulað á hann fyrir myndina Only God Forgives. Svo mikil óánægja var með myndina að gerð var heimildarmynd um ringulreiðina sem fylgdi frumsýningu myndarinnar á Cannes


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×