Innlent

Áfram ekkert áætlunarflug vegna veikinda

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra verður ekki þjónusta við annað en neyðarflug í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í nótt.
Vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra verður ekki þjónusta við annað en neyðarflug í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í nótt. Fréttablaðið/Stefán
Ekkert áætlunarflug verður um Keflavíkurflugvöll frá klukkan tvö í nótt til klukkan sjö í fyrramálið. Ástæðan er veikindi í röðum flugumferðarstjóra en vegna yfirvinnubanns fást ekki aðrir til afleysinga.

Tveir flugumferðarstjórar áttu að vera á vaktinni í nótt en báðir hafa tilkynnt um veikindi. Alls voru sextán flugvélar áætlaðar til komu frá Norður-Ameríku og átta til brottfarar til Evrópu á tímabilinu sem um ræðir.

Þá var ekkert áætlunarflug um flugvöllinn í nótt, sem raskaði flugáætlun í morgunsárið töluvert. Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segist eiga von á sambærilegum töfum á morgun.

„Við munum gera þetta á svipaðan hátt og í morgun. Við tökum á móti vélum eins hratt og unnt er. Í morgun lentu vélarnar hér á mjög stuttum tíma, tuttugu vélar frá Norður-Ameríku. Svo erum við með auka mannskap í farþegaþjónustu og lögregla passar upp á að manna vel landamæraeftirlit. Það mynduðust miklar raðir í vegabréfaeftirlitinu í morgun og sömuleiðis í innritun,“ segir Guðni í samtali við fréttastofu.

Yfirvinnubann flugumferðarstjóra hefur staðið yfir frá 6. apríl. Félag íslenskra flugumferðarstjóra og Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Isavia standa nú í kjaraviðræðum og hefur þeim verið vísað til ríkissáttasemjara. Viðræður hafa staðið yfir frá því í nóvember en síðasti fundur var haldinn 20. maí síðastliðinn. Ríkissáttasemjari hefur ekki boðað til nýs fundar í viðræðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×