Menning

Líkamarnir tjá hugsun og tilfinningu

Magnús Guðmundsson skrifar
Hestarnir sem renna saman eru magnað verk. Nánast ekki af þessum heimi.
Hestarnir sem renna saman eru magnað verk. Nánast ekki af þessum heimi. Visir/Stefán
Sýning á verkum belgísku listakonunnar Berlinde de Bruyckere er opnunarsýning myndlistarinnar á Listahátíðinni í Reykjavík. Á sýningunni gefur að líta verk frá síðustu fimmtán árum af áratugalöngum og fádæma farsælum ferli þessarar merku listakonu.

Stjarna hinnar belgísku Berlinde de Bruyckere hefur risið hratt í heimi myndlistarinnar frá árinu 2003 þegar hún náði alþjóðlegri hylli á Feneyjatvíæringnum þar sem skúlptúrar hennar voru sýndir í ítalska skálanum. Verk hennar búa yfir fádæma orku og sérstöðu í veröld nútímamyndlistar þar sem hún sækir sér áhrif og innblástur aftur til flæmska skólans og þýsku endurreisnarinnar sem brýst svo fram í ljóðrænum og áhrifaríkum verkum. Verkum sem ná í senn að ávarpa samtíma sinn og sögu. Lífið og listina.

Það er því sérdeilis gleðilegt að Listahátíðin í Reykjavík skuli opnuð í dag með sýningu á verkum Berlinde de Bruyckere í Listasafni Íslands. Á sýningunni er að finna skúlptúra og teikningar frá síðustu fimmtán árum sem veita innsýn í sköpunarheim þessarar merku listakonu.

Líf og dauði

Berlinde de Bruyckere segir að sýningin sé þannig hugsuð að það eigi sér stað ákveðin samræða á milli verkanna innan rýmisins. „Ef litið er á verk eins og skúlptúrinn með hestunum tveimur sem renna saman í eina heild þá held ég að það sé um margt lýsandi fyrir virðingu fyrir dauðanum. Þetta er ólíkt fyrstu verkunum þar sem ég var að vinna með hesta en þetta á rætur sínar að rekja til fyrstu heimsstyrjaldarinnar þar sem dauðir hestar lágu á víð og dreif um göturnar. Ég var að skoða þetta í ákveðnu verkefni og í framhaldinu gerist það að hestarnir verða að holdgervingi fyrir dauðann í mínum verkum. 

Hestarnir í þessum verkum lyftast frá jörðinni og eru því nánast ekki jarðneskir heldur upphafnir. Þeir renna saman í eina heild og eru fyrir mér Eros og Thanatos (Eros er táknmynd lífsviljans en Thanatos tákn fyrir dauðaþrá) og það er ekki hægt að flýja þennan veruleika. Veruleikinn verður aldrei umflúinn. Líf og dauði vernda og virða hvert annað og líkamarnir vaxa saman í einn upphafinn líkama. Ég er að tjá hugsun og tilfinningu.

Fljótandi ferli

Stundum teikna ég fyrst en stundum er það skúlptúrinn sem rekur mig áfram. Þarna er ekkert fastbundið heldur er þessi vinna flókið og erfitt ferli bæði tæknilega og út frá sköpuninni. 

Ég á í góðu samandi við háskóla þar sem ég fæ hræ hestanna sem ég síðan vinn með en í því er líka falið ákveðið tilfinningalegt ferli sem skiptir mig miklu máli. Það er nefnilega ekki sama hvernig hestarnir eru og ég þarf að ná að mynda við þá ákveðið samband til þess að geta nýtt þá við þau verk sem ég er að vinna að hverju sinni þó svo þessi verk séu unnin á miklum hraða og með fjölda aðstoðarmanna.

En teikningarnar mínar eru mér líka mikilvægar vegna þess að þá vinn ég ein. Það er í einu skiptin sem ég get unnið án þess að vera með aðstoðarmenn með mér. Þó það sé gott að vinna með góðu fólki þá þarf ég stundum einveruna sem ég get ekki fengið þegar ég er að vinna stóru verkin sem krefjast margra handa í löngu og flóknu ferli.“

Í leit að jafnvægi

Hestar eru aðeins einn þáttur í verkum de Bruyckere því mannslíkaminn er einnig í stóru hlutverki, bæði í teikningum sem og stórum og afar áhrifaríkum vaxskúlptúrum. Hún segir að þetta flæði þarna á milli viðfangsefna, frá hrossunum og yfir í mannslíkamann, gerist með ákaflega náttúrulegum hætti. „Þau verk sem ég hef nýlega unnið með líkömum eiga í ákveðinni samræðu við verkin með hestunum. Mannslíkamarnir eru oft afmyndaðir, jafnvel blóðugir og hlaðnir ofbeldi og óhugnaði – nánast dýrslegir. En á sama tíma leitast ég við að gera hestana nánast mannlega. Þetta er leit að jafnvægi sem ég þarf á að halda bæði í listinni og lífinu. Mér líkar við þá hugmynd að ég geti látið hlutina renna saman og komið þannig á ákveðnu jafnvægi.“

Berlinde de Bruyckere segir að þessir tveir pólar snúist ekki endilega um hið karllæga og kvenlæga eða eitthvað slíkt. „Fyrir mér er það persónubundið fyrir hvern og einn hvað felst í þessu. Ég hef í sjálfu sér ekki mikinn áhuga á að vinna út frá kynferði eða að því að sýna kyn í mínum verkum. Í sumum teikningunum sést kynferðið en oftar en ekki þá er kynferðið einfaldlega ekki til staðar.“

Vaxskúlptúr eftir Berlinde de Bruyckere á sýningunni í Listasafni Íslands.Visir/Stefán
Sköpun úr dauða

Faðir Berlinde de Bruyckere var slátrari og var hún alin upp í húsinu þar sem hann starfaði. Hún segist þó alltaf hafa reynt að neita að það væri tenging þar á milli og verka hennar. „En í seinni tíð hef ég gert mér grein fyrir því að auðvitað skiptir það máli. Svarið er fólgið í því að það sem faðir minn gerði var andstæða þess sem ég geri. Hann hlutaði í sundur kjöt til þess að við gætum borðað það. En þegar ég fer og sé hræ af hesti þá fyllist ég samkennd og eins og finnst að ég verði að halda í þetta og skapa eitthvað úr þessu. Ég er að reyna að opna umræðu sem hefur að gera með ótta, reiði, kvíða, von og dauða. Að opna á umræðu um allt þetta, líf og dauða, það er það sem ég leitast við að gera og þarf að gera.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 21. maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×