Innlent

Kjaradeila flugumferðarstjóra: Fá frest til 24. júní til að semja

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Alþingi verður kallað saman og leggja á fram frumvörp þess efnis að deiluaðilar fái frest til 24. júní til þess að leysa deiluna, ella verði gerðardómur kvaddur til.
Alþingi verður kallað saman og leggja á fram frumvörp þess efnis að deiluaðilar fái frest til 24. júní til þess að leysa deiluna, ella verði gerðardómur kvaddur til. Vísir/Anton/Heiða
Ríkisstjórnin samþykkti í dag á fundi sínum að grípa til aðgerða í kjaradeilu flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins. Leggja á fram tvö frumvörp þess efnis að deiluaðilar fái frest til 24. júní til þess að leysa deiluna, ella verði gerðardómur kvaddur til.

Þetta staðfesti Ólöf Nordal innanríkisráðherra við fréttastofu 365. Mun hún funda með fulltrúm stjórnarandstöðunnar í dag og fara yfir næstu skref. Reiknað er með að Alþingi verði kallað saman í dag eða á morgun svo ræða megi frumvörp innanríkisráðherra.

Flugumferðarstjórar hafa átt í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins og Isavia frá því í október á síðasta ári. Samningaviðræður hafa gengið illa og hafa flugumferðarstjórar sett á yfirvinnubann þannig að ekki er hægt að manna vaktir komi til veikinda.

Hefur yfirvinnubannið staðið yfir í tvo mánuði eða frá 6. apríl síðastliðnum. Á þeim tíma hefur næturumferð um Keflavíkurflugvöll legið niðri í fjórgang vegna veikinda vakthafandi flugumferðarstjóra.

Samkvæmt heimildum Vísi ber talsvert enn á milli aðila í samningaviðræðunum. Samtök atvinnulífisins halda fast við kjör samkvæmt Salek-samkomulaginu en flugumferðarstjórar hafa aðrar hugmyndir.

Uppfært klukkan 12:46: Búið er að boða til þingfundar klukkan 15 í dag þar sem frumvörp innanríkisráðherra verða lögð fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×