Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar þingsins, sækist ekki eftir endurkjöri þegar þingkosningar fara fram í haust. Þetta kom fram í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.
„Það kom mér mest á óvart hvað þetta er margbrotið og krefjandi starf og margt skemmtilegt fólk hérna. Það er gott samstarf í nefndunum um rosalega stór og flókin viðfangsefni,“ sagði Frosti. Hann segir að fólk fái yfirleitt aðeins að sjá það sem fram fer í þingsalnum og það gefi skakka mynd af þinginu. „Í nefndunum er fólk yfirleitt sammála þvert á flokka. Fólk sem fylgist aðeins með útsendingum úr þingsal sér bara rifrildið og hver var ósammála hverjum um það.“
Aðspurður um hvort hann sæktist eftir endurkjöri sagði hann að hver maður þyrfti að gera upp við sig hvort hann vildi vera á þinginu að eilífu. „Það var niðurstaða mín að gefa ekki kost á mér á ný. Ég er mjög þakklátur og ánægður með öll þau kynni sem ég hef haft af öllum þingmönnum og ég kveð Alþingi með ekkert nema gleði í hjarta.“
Frosti vildi ekki gefa upp hvað tæki við eftir að setu hans á þingi lýkur. „Það er svolítið þar til störfum þingsins lýkur. Við munum halda áfram út í haustið og svo eru boðaðar kosningar í haust. Það er svo margt sem kemur til greina sem hægt er að gera.“
Innlent