Innlent

Íþróttaverslanir um heim allan vilja selja íslenska búninginn

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Þó að íslenska landsliðstreyjan hafi verið nokkuð umdeild til að byrja með má með sanni segja að búið sé að taka hana í sátt og rúmlega það. Þessi fagurbláa treyja er heitasta flík sumarsins og uppseld víðast hvar.

Hátt í þrjátíu þúsund íslenskar landsliðstreyjur hafa selst frá því að EM í fótbolta hófst og eru þær nú nær ófáanlegar. Síðasta sólarhring hefur Þorvaldur Ólafsson framkvæmdastjóri Errea á Íslandi, sem framleiðir treyjuna, fengið tugi fyrirspurna frá íþróttaverslunum um heim allan sem vilja selja íslenska búninginn. 

„Það hefur verið góð sala í verslunum út um alla Evrópu. Meira að segja alveg niður til Ástralíu. Eftir sigurleikinn við England þá hefur símakerfið hreinlega sprungið og það eru fyrirspurnir að koma inn allstaðar að úr heiminum, sportvöruverslanir, litlar og stórar. Ég fékk meira að segja póst frá Grænlandi. Það er eitthvað se ég átti ekki von á. Viðbrögðin eru ótrúleg.“

Þorvaldur segir að væntingarnar hafi verið miklar til að byrja með en að enginn hafi gert ráð fyrir svo mikilli sölu. Yfir tuttugu þúsund treyjur hafa selst hér á landi og yfir fimm þúsund erlendis.

„Það er mjög erfitt að anna eftirspurn. Það er framleitt allan sólarhringinn. Treyjan er framleidd í Evrópu og allt sem við höfum framleitt selst. Nánast áður en við komum því úr framleiðslu,“ segir Þorvaldur.



Búningarnir sem strákarnir okkar klæðast á sunnudaginn bíða þess að verða merktir áður en farið verður með þá til Parísar.
Búningar strákanna sendir með handfarangri til Parísar fyrir leikinn

Strákarnir okkar spila í hvítum búningum á sunnudaginn. Verið er að sérmerkja þá fyrir leikinn eftir kúnstarinnar reglum og mun Þorvaldur svo sjálfur fara með þá í handfarangri til Parísar fyrir leikinn.

Von er á nýrri treyjusendingu á föstudag. Einhverjar þeirra verða seldar í íþróttaverslunum en stór hluti hefur nú þegar verið seldur í forsölu. En Þorvaldur segir fleiri möguleika í stöðunni. 

„Það eru bæði til stuðningsbolir og bolirnir sem strákarnir hita upp í. Bara hafa stúkuna bláa, bláa hafið,“ segir hann kátur í bragði. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×