Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins og nýráðinn þjálfari KR í Pepsi-deild karla er klár í slaginn í kosningabaráttuna í haust þrátt fyrir nýja starfið. Hann gerir ekki ráð fyrir að hætta á þingi.
„Nei,nei, nú er sumarfrí á þinginu og þá notum við sumarið í þetta,“ segir Willum aðspurður hvort að að hann muni hætta á þingi en tilkynnt var um ráðningu Willums til KR í dag eftir að Bjarni Guðjónsson var látinn taka poka sinn í gær eftir lélegt gengi KR á tímabilinu.
Boðað hefur verið til kosninga í haust og er gert ráð fyrir að þær fari fram í lok október án þess þó að búið sé að festa dagsetningu. Samningur Willums hjá KR er til loka tímabilsins en síðasti leikur liðsins verður þann 1. október. Aðspurður hvort að Willum sé klár í slaginn í kosningabaráttuna í haust svarar Willum því játandi. Þá verður Alþingi sett á nýjan leik 15. ágúst næstkomandi.
Fyrsta verkefni Willums sem þjálfari KR er þó leikur gegn Norður-Írunum í Glentoran á fimmtudag í undankeppni Evrópudeildarinnar.
Willum klár í kosningabaráttu haustsins þrátt fyrir nýja starfið
Tengdar fréttir
Willum: Ekki hægt að segja nei við uppeldisfélagið
Willum Þór Þórsson, nýráðinn stjóri KR, segir að það hafi ekki verið hægt að segja nei við uppeldisfélagið sitt þrátt fyrir að uppeldisfélagið hafi oft sagt nei við hann.
Willum Þór tekur við KR-liðinu
Willum Þór Þórsson verður næsti þjálfari KR í Pepsi-deild karla í fótbolta og tekur við liðinu af Bjarna Guðjónssyni sem var rekinn í gær. Willum Þór stýrði fyrstu æfingunni hjá KR í kvöld.