Fótbolti

Heimir: Breytum þjóðhátíðardeginum í 22. júní

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimir á hliðarlínunni í kvöld.
Heimir á hliðarlínunni í kvöld. Vísir/Vilhelm
„Það sáu allir sem voru að horfa hvaða þýðingu þetta hafði fyrir okkur. Okkar menn voru reiðubúnir að fórna öllu fyrir sigurinn,“ sagði Heimir en hann hrósaði einnig austurríska liðinu.

„Þeir börðust til loka fyrir sigurmarkinu. Við vorum heppnir á köflum en sýndum frábært hugarfar út leikinn,“ sagði hann.

„Það voru margir þrettir í lokin. Við höfum nánast spilað á sama liðinu í keppninni og það voru margir þreyttir fætur í liðinu.“

„En eins og við höfum sagt svo oft áður. Við erum stoltir af leikmönnum okkar.“

Hann segir að íslenska liðið hafi misst frumkvæðið eftir góða byrjun í kvöld. „Við gáfum Austurríki boltann of auðveldlega. Við byrjuðum vel, héldum boltanum vel og náðum að spila upp völlinn. Það gerðum við ekki vel gegn Ungverjalandi.“

„En svo skoruðum við markið og þá fara menn að hugsa um að fá ekki mark á sig. Við misstum frumkvæðið. En góð byrjun okkar gaf tóninn og hún gerir það oft í svona leikjum.“

Hann kvíðir ekki undirbúningi íslenska liðsins fyrir leikinn gegn Englandi á mánudag.

„Miðað við hvernig undirbúningurinn var fyrir þennan leik veit ég að hann verður góður fyrir leikinn á mánudag.“

„Það var gaman að vinna þennan leik og komast í 16-liða úrslitin. En það var ekki minni sigur að lenda í öðru sæti riðilsins og fá auka tvo daga.“

„Það er ókosturinn við að vera í lokariðli keppninnar. Við hefðum mögulega aðeins fengið tvo frídaga. En við vissum allan tímann að mótherjinn yrði sterkur í 16-liða úrslitunum.“

Heimir var spurður hvernig viðbrögðin væru heima á Íslandi.

„Orðum það þannig. Ég held að þýðing þessa sigurs fyrir íslensku þjóðina að það sé örugglega vilji nú til þess að breyta þjóðhátíðardeginum úr 17. júní í 22. júní.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×