Körfubolti

Vand­ræði utan vallar höfðu sitt að segja

Valur Páll Eiríksson skrifar
Wendell Green leitar á ný mið eftir brottrekstur frá Keflavík.
Wendell Green leitar á ný mið eftir brottrekstur frá Keflavík. Vísir/Anton Brink

Magnús Sverrir Þorsteinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, segir það hafa verið erfiða ákvörðun að láta Bandaríkjamanninn Wendell Green fara frá félaginu. Vandræði utan vallar hafi haft sitt að segja auk vonbrigða innan vallar.

„Við vorum stórorðir fyrir tímabil og allar spár sögðu til um það að við ætlum okkur stóra hluti. Við höfum ekki farið þannig af stað. Það var nokkuð ljóst að það þurfti að fara í breytingar,“ segir Magnús Sverrir í samtali við íþróttadeild. Það sé þá alltaf erfitt að láta menn fara.

„Það er alltaf leiðinlegt þegar verið er að reka menn eða losa menn. Auðvitað vonast maður alltaf til að menn standi sig þegar þeir koma og spila fyrir okkur. Það gerðist því miður ekki í þetta skiptið,“ segir Magnús enn fremur.

Magnús Sverrir er formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur.Íslenski draumurinn

Einhverjar sögusagnir hafa verið á kreiki um að Green hafi verið til vandræða utan vallar. Magnús kveðst ekki vilja fara í kjölinn á því en neitar því ekki að það hafi haft áhrif við ákvörðunartökuna.

„Það virðist vera að eitthvað sé komið út um það. Ég veit ekki alveg hvernig á að svara því. Það er búið að vera meira vesen. Þetta er bæði innan og utan vallar,“ segir Magnús og inntur eftir svörum segir hann:

„Það eru komnar einhverjar sögur á kreik með það. Ég ætla hvorki að játa þeim eða neita þeim en þetta er bæði innan vallar og utan, þessi brottrekstur.“

Leit sé þá komið á fullt eftir nýjum Bandaríkjamanni í stað Green.

„Heldur betur. Það er allt á fleygiferð með það.“

Næstu tveir leikir Keflavíkur í Bónus deild karla eru við sigurlausu botnliðin ÍR og Hauka áður en kemur að landsleikjahléi. Tímapunkturinn til að fá inn nýjan mann gæti því verið verri fyrir Keflvíkinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×