Enski boltinn

Nolito nálgast Man City

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nolito hefur skorað fimm mörk í 12 landsleikjum fyrir Spán.
Nolito hefur skorað fimm mörk í 12 landsleikjum fyrir Spán. vísir/epa
Spænski landsliðsmaðurinn Nolito er nálægt því að ganga í raðir Manchester City frá Celta Vigo. The Guardian greinir frá.

Í frétt the Guardian kemur fram að Nolito hafi náð samkomulagi við City um kaup og kjör; hann muni gera þriggja ára samning við enska úrvalsdeildarliðið með möguleika á eins árs framlengingu.

Nolito, sem heitir fullu nafni Manuel Agudo Durán, hefur skorað 39 deildarmörk fyrir Celta Vigo á síðustu þremur tímabilum en hann kom til liðsins frá Benfica í Portúgal.

Nolito, sem verður þrítugur í október, var á sínum tíma á mála hjá Barcelona en lék aðeins fimm leiki fyrir aðallið félagsins.

Hjá City hittir hann fyrir Pep Guardiola sem var knattspyrnustjóri Barcelona þegar Nolito var hjá Katalóníufélaginu.

Nolito hefur verið í byrjunarliðinu í öllum leikjum Spánverja á EM til þessa, skorað eitt mark og átt eina stoðsendingu.

Spánn tapaði 2-1 fyrir Króatíu í lokaumferð riðlakeppninnar í gærkvöldi og þarf því að mæta Ítalíu í 16-liða úrslitum á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×