Erlent

Mikil bræði eftir að lögregluþjónar skutu svartan mann

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir
Myndband af lögregluþjónum skjóta þeldökkan mann til bana í Baton Rouge í Bandaríkjunum í gær hefur vakið mikla reiði. Myndband náðist af atvikinu þar sem Alton Sterling, 37 ára, var skotinn til bana. Tveir lögregluþjónar fóru á vettvang eftir að hafa fengið kvörtun vegna manns sem væri að selja geisladiska.

Samkvæmt lögreglunni var Sterling sagður hafa ógnað vegfaranda með byssu. 

Á myndbandinu má sjá hvernig lögregluþjónarnir rífa Sterling í jörðina og halda honum niðri. Einn þeirra kallar „byssa“ og báðir draga upp byssur sínar og miða á Sterling. Því næst skýtur annar lögregluþjónninn hann fjórum eða sex skotum, samkvæmt Washington Post.

Vert er að vara viðkvæma við myndbandinu hér að neðan.

Á vef héraðsmiðilsins The Advocate er rætt við búðareigandann Abdullah Muflahi sem segir Sterling ekki hafa verið með byssu og að hann hafi ekki verið með hendurnar nærri vösum sínum.

Muflahi segir lögregluþjónana hafa frá upphafi gengið mjög hart fram. Áður en myndbandið hefst skutu þeir Sterling með rafbyssu, sem virtist ekki hafa mikil áhrif á hann.

Sterling lést skömmu eftir að hafa verið skotinn. Lögregluþjónarnir tveir hafa verið sendir í leyfi. Þingmaðurinn Cedric Richmond hefur kallað eftir því að atvikið verði rannsakað af Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna.

Frá mótmælum í Baton Rouge.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×