Samkvæmt AFP er um að ræða eina mannskæðustu árás í sögu landsins. Rúmlega 200 manns eru særðir. Árásin var gerð á stóru verslunarsvæði þar sem fjölmargir voru komnir saman til að versla fyrir lokadag Ramadan.
Búið er að lýsa yfir þriggja daga þjóðarsorg í Írak, en Haider al-Abadi, forsætisráðherra, hefur heitið hefndum. Íslamska ríkið hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni. ISIS-liðar hafa fjölgað árásum sem þessari í Írak, en hryðjuverkasamtökin eru á undanhaldi víða þar í landi sem og í Sýrlandi.
Talið er að hreinsunarstarf muni taka nokkra daga og það hefur reynst erfitt að bera kennsl á hina látnu. Heilu fjölskyldurnar eru sagðar hafa verið þurrkaðar út.
Fimm manns létu lífið í annarri árás í Baghdad á laugardaginn.
Abadi hefur tilkynnt að öryggisgæsla í höfuðborginni verði aukin til muna. Þá verði sérstökum búnaði til að leita í bílum komi fyrir á aðgangsvegum Baghdad og annarra borga.