Sport

Eygló Ósk vonast til að geta bætt Íslandsmetin í Ríó | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sundkonan Eygló Ósk Gústavsdóttir, Íþróttamaður ársins 2015, verður á meðal keppenda á Ólympíuleikunum í Ríó sem hefjast eftir tæpan mánuð.

Eygló fer til Brasilíu eftir viku en hún keppir í undanrásum í 100 metra baksundi 7. ágúst. Fjórum dögum síðar keppir hún svo í undanrásum í 200 metra baksundi.

„Tvöhundruð metrarnir hafa alltaf verið ofar hjá mér. En maður veit aldrei hvort ég komi sjálfri mér á óvart í 100 metrunum. Mitt helsta markmið er bara að reyna að bæta mig,“ sagði Eygló í samtali við Arnar Björnsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.

Að sögn Eyglóar verða allar af bestu sundkonum heims með á Ólympíuleikunum. Hún segist þó aðallega einbeita sér að sinni eigin frammistöðu.

„Ég er ekkert mikið í því að horfa á keppendalistann. Ég ætla bara að mæta á staðinn, sjá hvar ég er að synda og gera mitt,“ sagði Eygló. En getur hún bætt Íslandsmetin sín í Ríó?

„Ég vona það allavega. Ég vona að ég sé búin að æfa almennilega og það heppnist allt.“

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×