Sport

„Óhreinn“ keppninautur Hrafnhildar má keppa á ÓL í Ríó

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alþjóðasundsambandið hefur fengið á sig talsverða gagnrýni í kjölfarið að forráðamenn sambandsins ákváðu að gefa Rússanum Juliu Efimovu grænt ljós á að keppa á Ólympíuleikunum í Ríó.

Julia Efimova vann brons í 200 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í London 2012 og má nú keppa þrátt fyrir að hafa fallið á lyfjaprófi á þessu ári.

Efimova fékk á sínum tíma sextán mánaða bann (frá 2013 til 2015) fyrir að nota ólöglega stera og missti þá meðal annars Evrópumeistaratitilinn sinn frá 2013.  

Julia Efimova var ein af þeim sem hafði notað meldóníum sem er sama lyf og rússneska tenniskonan Maria Sharapova notaði en hún féll á lyfjaprófi sem var tekið á opna ástralska tennismótinu í ársbyrjun. Sharapova var dæmd í tveggja ára keppnisbann.

Meldóníum mældist í lyfjaprófi sem Efimova fór í febrúar og Alþjóðasundsambandið setti hana í framhaldinu í tímabundið bann.

Nú hefur Alþjóðasundsambandið hinsvegar ákveðið að hætta við að kæra Juliu Efimovu fyrir að nota meldóníum. Það er enginn að neita því að hún hafi mælst með lyfið í blóðinu ekki einu sinni hún sjálf.

Lögmaður Juliu Efimovu sagði í viðtali við rússnesku fréttastofuna TASS að skjólstæðingur sinn væri laus við kæruna og jafnframt úr banninu og að Efimova hafi einnig sloppið við refsingu.  Sjá umfjöllun um málið hér.

Julia Efimova verður því væntanlega í baráttunni við íslensku sundkonuna Hrafnhildi Lúthersdóttur um sæti í úrslitum í 200 metra bringusundi í Ríó.

Hin Litháenska Ruta Meilutyte, sem keppir í bringusundi og vann gull í 100 metrunum á ÓL í London, tjáði sig um málið á Twitter og þar leyfði hún kaldhæðninni að njóta sín eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×