Sport

Fór í aðgerð vegna krabbameins í mars en keppir á ÓL í ágúst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hollenska sundkonan þurfti að fara í aðgerð vegna krabbameins í mars síðastliðnum og það bjuggust því fáir við að sjá hana keppa á Ólympíuleikunum í Ríó í næsta mánuði.

Inge Dekker var með krabbamein í leghálsi sem uppgötvaðist í febrúar og þurfti því að bíða og sjá með hvort að Ólympíudraumur hennar rættist. Aðgerðin gekk vel og hún hélt óhrædd áfram að undirbúa sig fyrir Ríó.

Inge Dekker tókst að jafna sig það fljótt að hún gat hafið strax æfingar og nú hefur hún tryggt sér sæti í Ólympíusundliði Hollendinga á Ólympíuleikunum.

Þetta verða hennar fjórðu Ólympíuleikar en örugglega ein mesta upplifunin út frá því sem hún hefur gengið í gegnum undanfarna fimm mánuði.

Inge Dekker snéri aftur í keppni í júní og hefur verið að ná frábærum tímum í endurkomunni þar á meðal einum af tíu bestu tímum hollenskrar sundkonu í 100 metra flugsundi.

Inge Dekker hefur sagt frá því í viðtali við hollenska netmiðilinn Helden Online að hún hafi mátt þola mikla verki og hafi ekkert getað gert fyrst eftir aðgerðina.

Inge Dekker hefur nú fengið það staðfest að hún er í 17 manna sundliði Hollendinga á ÓL í Ríó og mun keppar þar í nokkrum greinum þar á meðal 100 metra skriðsundi.

Inge Dekker á gull-, silfur- og bronsverðlaun frá Ólympíuleikum en þau komu öll í boðsundi með hollensku sveitinni. Öll verðlaunin komu í 4 x 100 metra boðsundi, gullið vannst í Peking 2008, silfrið í London 2012 og bronsið í Aþenu 2004.

Hún varð líka heimsmeistari í 50 metra flugsundi á HM í Shanghæ 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×