Enski boltinn

Cantona við Zlatan: Það er bara einn kóngur í Manchester, þú mátt vera prinsinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/getty
Eric Cantona, fyrrverandi leikmaður Manchester United, heldur áfram að slá í gegn í hlutverki sínu sem „Yfirmaður fótboltans“ hjá Eurosport.

Í nýjasta myndbandsbloggi sínu fer Cantona yfir sigur Frakklands á Þýskalandi í undanúrslitum EM 2016 og hrósar Antoine Griezmann fyrir hans þátt í sigrinum.

„Það voru margir dásamlegir bardagamenn þetta kvöld í Marseille en aðeins ein hetja: Antoine Griezmann. Fullkomin blanda af æskuljóma, hæfileikum og hreðjum,“ segir Cantona á sinn einstaka hátt.

Cantona segir einnig að Bastian Schweinsteiger, sem fékk á sig vítaspyrnu í leiknum gegn Frökkum fyrir hendi, hefði átt að hlusta ráðleggingar þjálfara síns, Joachims Löw, og halda höndunum í buxunum.

Cantona fer einnig yfir árangur Portúgals og Wales og í lokin beinir hann orðum sínum að Zlatan Ibrahimovic, sem gekk nýverið í raðir Manchester United.

„Ég er með skilaboð til Zlatans. Þú ákvaðst að klæðast rauðu treyjunni sem er besta ákvörðun sem þú hefur tekið,“ segir Cantona.

„Þegar þú gengur inn í „Leikhús draumanna“. Þegar þú finnur fyrir anda goðsagnanna sem komu á undan þér. Þegar þú skorar þitt fyrsta mark fyrir framan Stretford End. Þegar þú heyrir stuðningsmennina kyrja nafn þitt. Þegar hjartað hamast í brjóstinu á þér. Þegar þú finnur að ástin er endurgoldin. Þá veistu, vinur minn, að þú ert loksins kominn heim.“

Cantona tekur þó af allan vafa með að hann sé ennþá kóngurinn á Old Trafford.

„Eitt að lokum, það getur bara verið einn kóngur í Manchester. Þú getur verið prinsinn ef þú vilt. Og sjöan er þín ef þú vilt. Kóngurinn er farinn! Lengi lifi prinsinn!“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×