Áhöfn TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, kom göngumanni til bjargar fyrr í dag eftir að Landhelgisgæslunni bárust boð úr neyðarsendi. Maðurinn reyndist vera fastur á eyri út í á í grennd við Þórisvatn.
Neyðarkallið barst klukkan 9.47 frá breskum neyðarsendi sem skráður var á einstakling. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar gerði þá þegar lögreglu og landsstjórn björgunarsveita viðvart um málið.
Einnig hafði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar umsvifalaust samband við Björgunarmiðstöðina í Bretlandi til að afla frekari upplýsinga um sendinn. Kom þá í ljós að þótt sendirinn væri skráður í Bretlandi var hann í eigu þýskrar konu. Hins vegar var ekki vitað hvort margir væru í hættu eða hvers konar hættu.
Rétt um hálfellefu tilkynnti landsstjórn björgunarsveita að staðurinn væri að öllum líkindum í vaði úti í á fyrir norðan Þórisvatn í Stóraverskvísl. Þegar það lá fyrir var óttast um að jafnvel fleiri en einn væri í neyð og mögulega að bíll væri fastur í vaði.
Meðal þeirra upplýsinga sem bárust frá Björgunarmiðstöðinni í Bretlandi var símanúmer handhafa sendisins. Lögreglan náði sambandi við eigandann og kom þá í ljós að sendirinn væri nú í höndum sonar eigandans. Allt væri í lagi með hann en hann væri hins vegar fastur á eyri úti í á.
Var þá ákveðið að snúa TF-SYN, þyrlu Landhelgisgæslunnar til baka en TF-LIF kom manninum til aðstoðar en hann hafði verið á göngu frá Ásbyrgi á leið yfir í Skóga. Var þyrlan komin á vettvang rúmlega ellefu og kom manninum á fast land.
Göngumanni bjargað úr sjálfheldu
Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
