Erlent

Skoða hvort banna eigi að byggja moskur fyrir erlent fé

Samúel Karl Ólason skrifar
Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands.
Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands. Vísir/EPA
Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, segist opinn fyrir því að stjórnvöld banni tímabundið að erlent fé verði notað til að byggja moskur í Frakklandi. Sú hugmynd er til skoðunar. Þá kallar hann eftir því að klerkar verði þjálfaðir í Frakklandi en ekki útlöndum.

„Við þurfum að endurskoða og mynda nýtt samband við Íslam í Frakklandi," sagði Valls í viðtali við dagblaðið Le Monde. Hann sagði einnig að hann ætti von á fleiri hryðjuverkaárásum í Frakklandi.

Valls og Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra, hafa orðið fyrir gagnrýni fyrir öryggismál eftir að ekki tókst að koma í veg fyrir þrjár stórar hryðjuverkaárásir á 18 mánuðum. Í ljós hefur komið að einn árásarmannanna tveggja sem myrtu prest í kirkju í vikunni var undir rafrænu eftirliti þar sem hann beið þess að fara fyrir dómara vegna hryðjuverkatengdar ákæru.

Valls segir að það sýna fram á að dómarar þurfi að haga ákvörðunum sínum með tilliti til hvers máls fyrir sig.

Yfirvöldum í Frakklandi hafði borist ábending á að hinn 19 ára gamli Abdel Malik Petitjean hafði lýst yfir stuðningi við Íslamska ríkið á samfélagsmiðlum, en þá var ekki vitað hvað hann hét. Ekki tókst að bera kennsl á hann fyrir árásina í vikunni. Hann var þó á vaktlista yfirvalda eftir að hafa reynt að ferðast til Sýrlands í júní. Um tíu þúsund nöfn eru á listanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×